Til stendur að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á Litla-Hrauni sem felast meðal annars í því að turn fangelsisins mun ekki gegna neinu hlutverki.
Þetta segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við Vísi.
Áhersla verður lögð á bætt öryggi og aðgengi skjólstæðinga og starfsfólks, betri aðstöðu til geð- og heilbrigðisþjónustu og heimsókna aðstandenda.
Ný radar- og eftirlitskerfi gera það að verkum að turn Litla-Hrauns mun ekki gegna neinu hlutverki, eins og áður sagði. Verður hann því rifinn.
Páll segir að áætlanir geri ráð fyrir að framkvæmdum ljúki eftir um tvö ár en farið verður eftir tillögu VA arkitekta, sem var gerð í samstarfi við Betula landslagsarkitekta og Mannvit verkfræðistofu.