Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru hækkaðir um 0,25 prósentur í morgun og segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, það vera skelfilega þróun ef Seðlabankinn ætli sér að vera með pólitísk skilaboð sem þessi út á markaðinn. Hann segir þá einu sem njóti góðs af vaxtahækkuninni vera fjármagnseigendur og að augljóst sé að hækkanirnar muni ekki hjálpa til við að draga úr verðbólgu.
„Stýrivaxtahækkun Seðlabankans fer auðvitað gríðarlega illa í okkur. Þetta eru alls ekki skilaboð sem eru rétt inn í þá stöðu sem er í dag. Þetta gerir málin eingöngu erfiðari frekar en hitt við endurnýjun kjarasamninga. Maður hefur verulegar áhyggjur af því að þeir sem hagnast á þessum stýrivaxtahækkunum eru auðvitað bara fjármagnseigendur og enginn annar sem nýtur góðs af þessu núna,” segir Kristján.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði að enginn ætti að trúa því að vextir yrðu ekki hækkaðir þar sem það gæti hæglega gerst ef staðan versnaði. Það myndi þó ekki gerast nema það væri talið nauðsynlegt en þetta kom fram á kynningarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans í morgun. Spurður út í þessi ummæli segir Kristján það vera skelfilega þróun ef Seðlabankinn ætli sér að vera með svona pólitísk skilaboð út á markaðinn.
„Það er í fyrsta skipti núna sem við erum að sjá að Seðlabankinn er að beita sér með beinum hætti við gerð kjarasamninga og það er auðvitað skelfileg þróun ef Seðlabankinn ætlar sér að vera með svona pólitísk skilaboð út á markaðinn,“ segir Kristján.
Spurður hvort seðlabankastjóri sé að senda þau skilaboð út á markaðinn að kröfur séu ekki raunhæfar segir Kristján ekki vita hvort það sé staðan en augljóst sé að þetta hafi ekki jákvæð áhrif á verðbólgu.
„Ég svo sem veit það ekki hvort hann sé að meta það sem svo eða hvort hann sé búinn að búa til væntingar sjálfur um þá stöðu. Það er mjög erfitt að lesa akkúrat í það en það er augljóst að þetta mun ekki hjálpa til á neinn hátt á markaði til þess að draga úr verðbólgu,“ segir Kristján.
Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins sagði í viðtali fyrr í dag að búið væri að þurrka upp allan ávinninginn af því sem náðist árið 2019. Kristján segist geta tekið undir þau ummæli heils hugar og að þetta væru orð að sönnu.
„Ég er auðvitað sammála þar sem markmiðið með samningunum 2019 var að stuðla að lægri vöxtum hér á landi sem tókst framan af. Núna eins og staðan er í dag eru vextir orðnir þó nokkuð hærri en þegar við gerðum síðustu kjarasamninga. Það er búið að þurrka algjörlega út þann ávinning sem við náðum þar þannig ég tek heilshugar undir þau ummæli.“