„Það má segja að í Jólamösti sameinist tvær af þekktustu jólahefðum Svía á einum og sama stað – geitabrennur og Julmust sem einmitt er vinsælasta gostegundin þar í landi um hátíðarnar,“ segir Sturlaugur Jón Björnsson, gosgerðarmeistari í Öglu gosgerð.
Nýr gosdrykkur Öglu, Jólamöst, hefur vakið athygli margra í verslunum síðustu daga en þar er um að ræða íslenska atlögu að hinum vinsæla sænska jóladrykk Julmust.
„Það má með sanni segja að það sé búið að vera nóg að gera í bruggræjunum síðustu mánuði að blanda upp hátíðarnar fyrir landsmenn. Nú er síðasta jólaútgáfan þetta árið; Jólamöst – Geitin í sænsku jólagosi komin í vel valdar verslanir. Það er óhætt að fullyrða að Jólamöstið sé algjört möst þessi jólin, eða svokallað almöst,“ segir gosgerðarmeistarinn kíminn.
Hann segir að Jólamöst tilheyri gosstílnum Julmust sem á sér langa sögu í Svíþjóð og hefur verið hluti af jólahefðum Svía allt frá því feðgarnir Harry og Robert Roberts kynntu það til leiks árið 1910.
„Það gleður okkur umtalsvert að færa þjóðinni loksins þennan norræna eðaldrykk en þess má geta að Jólamöst er á allflestum heimilum í Svíþjóð yfir hátíðarnar, einskonar Malt og Appelsín, eða Jólakóla þeirra Svía. Þetta staðfesti ég sjálfur, í eigin persónu, þar sem ég bjó um stund þar í landi. Eitt af mörgu sem gerir möstið sérstaklega skemmtilegt er að í glasi lítur það út fyrir að vera hefðbundið maltöl en angan og bragð er þó af allt öðrum meiði. Hátíðlegt er það vissulega en við sopann brýst fram léttur og fjörugur jurta- og sælgætiskeimur sem parast til að mynda vel með reyktu lamba- og svínakjöti, síld, graflaxi og ýmsum hefbundum jólamat. Það er þó nauðsynlegt að benda Íslendingum á að það er stranglega bannað að þamba Jólamöst þó það sé vissulega algjört möst að drekka það yfir hátíðarnar.“
Handbragð gosgerðarmeistarans er ekki það eina við Jólamöst sem vekur athygli. Umbúðir drykkjarins skarta alelda geithaf sem óneitanlega minna á þekktar brennur á jólageitum, bæði í Garðabæ og í föðurlandinu.
„Umbúðir Jólamösts skarta mynd af hinni víðfrægu Gävlebocken-geit sem prýðir hið glæsilega Slottstorget í borginni Gävle í Svíþjóð á aðventunni ár hvert og hefur gert frá árinu 1966. Eins og aðrar strágeitur er þessi illa eldvarin og hafa geitabrennur verið partur af aðventuhaldi Gävle-búa í yfir 70% tilfella undanfarin 56 ár,“ segir gosgerðarmeistarinn.
Hann kveðst taka hlutverk sitt alvarlega og vera stoltur af því að gosið verði á borðum landsmanna um hátíðarnar. „Meginmarkmið Öglu er sem fyrr að hefja íslenska gosmenningu til vegs og virðingar og færa landsmönnum hágæða gos allan ársins hring. Á þeirri vegferð er mikilvægt að gera sig gildandi á hátíðartímum þegar fólk gefur sér tækifæri til að slaka á og gera vel við sig í mat og drykk. Bannað að þamba!“