Geta „ekki fjármagnað Tene-ferðir úr forðanum“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri mbl.is/Kristinn Magnússon

Vöxtur einkaneyslu hér á landi hefur síðustu mánuði komið Seðlabankanum á óvart og hefur þessi eyðsla komið niður á gengi krónunnar. „Þjóðin er bara dálítið að eyða og spenna,“ segir seðlabankastjóri og vísar aftur til utanlandsferða landsmanna og segir að slíkt kosti gjaldeyri. Hins vegar virðist einkaneyslan dregin áfram af uppsöfnuðum sparnaði frá faraldrinum og auknum ráðstöfunartekjum heimilanna frekar en aukinni skuldasöfnun.

Þetta var meðal þess sem kom fram á kynningarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans í morgun, en áður hafði verið tilkynnt um 0,25 prósentustiga hækkun stýrivaxta. Á fundinum var reglulega komið inn á vöxt einkaneyslunnar og áhrifa hennar á hagstærðir, gengi krónunnar og ákvarðanir bankans.

Stefnir í annað árið í röð yfir 7% vexti

Í yfirferð Þórarins G. Pétursson, aðalhagfræðings bankans, kom fram að einkaneyslan á fyrri hluta ársins hafi verið 13,5% og að þótt að hægt hafi á henni þá búist Seðlabankinn nú við 5,7% vexti á þriðja ársfjórðungi. Var vöxturinn 0,7 prósentustigum hærri en búist hafði verið við í október og er nú gert ráð fyrir að vöxturinn verði yfir 7% þegar horft sé til ársins í heild. Sagði hann það þá vera annað árið í röð sem einkaneyslan vex um yfir 7%.

Sagði hann að nýjar tölur Hagstofunnar bendi jafnframt til þess að ráðstöfunartekjur heimilanna væru að aukast enn frekar og að það hafi lyft spám Seðlabankans fyrir lok ársins og fyrir næsta ár. Þannig gerir bankinn nú ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu á næsta ári verði 2,6% í stað 2%, en að vöxturinn verði 3% árið 2024.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði enn töluverðan kraft og þrótt vera í efnahagslífinu hér á landi og benti á að árshagvöxtur hafi mælst 6,1%á fyrri hluta ársins. Þá geri bankinn ráð fyrir að hagvöxtur á árinu í heild verði 5,6%.

„Miklu meiri vöxtur í einkaneyslu en við höfðum búist við

Ásgeir var spurður út í aðgerðir bankans núna að hækka vexti í kjölfar síðasta fundar í október þar sem hann sagðist vera að gefa boltann til aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins. Töldu margir það til marks um að peningastefnunefnd teldi gott komið af hækkunum í bili, þó að Ásgeir hafi alltaf tekið fram að brugðist yrði við ef þyrfti. Segir hann nú að mat bankans hafi verið að með vægri hækkun síðast hafi bankinn talið sig vera að ná tökum á verðbólgunni. „Það sem hefur gerst síðan er það að það er miklu meiri vöxtur í einkaneyslu en við höfðum búist við og það kemur m.a. fram í lækkun krónunnar. Þjóðin er bara dálítið að eyða og spenna.“ Þá segir hann peningastefnunefnd einnig telja meiri áhættu þegar litið sé til framtíðar.

Spila „solo“ ef þarf en fallegra ef fólk spilar saman

Var ítrekuð spurningin með „að senda boltann“ til aðila vinnumarkaðarins og sagði Ásgeir að hlutverk Seðlabankans væri að ná verðbólgu aftur í markmið og að mögulega þyrfti að grípa til frekari aðgerða áður en boltinn væri sendur yfir. Sagði hann að bankinn væri sjálfstæður og gæti aldrei lofað að ekki kæmi til frekari hækkana. Það væri alveg skýrt að bankinn myndi grípa til ef þörf væri á. Hins vegar ítrekaði hann að bæði bankinn og vinnumarkaðurinn væru með sameiginleg markmið og hagsmuni.

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, greip svo orðið og hélt áfram með vísanir í fótbolta. „Til að halda áfram með þetta boltamál. Við munum spila solo og skora í mark, en það er miklu fallegri leikur, allavega að mínu mati, ef fólk spila saman. Bara að það sé alveg á hreinu.“

„Þegar þjóðin er að fara á Tene, það kostar gjaldeyri“

Ásgeir benti því næst á að það væri gríðarlegur vöruskiptahalli, en enn ætti almennilega eftir að koma í ljós með afgang af þjónustuviðskiptum. Sagði hann þetta áhrif af mikilli einkaneyslu. „Þegar þjóðin er að fara á Tene, það kostar gjaldeyri,“ bætti hann við.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem seðlabankastjóri vísar til …
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem seðlabankastjóri vísar til eyjarinnar Tenerife á fundum peningastefnunefndar. Í október talaði hann um táslumyndir frá Tene. Samsett mynd

Ásgeir sagði að þó að einhver aukning væri í yfirdráttarlánum, þá væru samt vísbendingar um að þessi neysla væri uppsafnaður sparnaður fólks frá í covid og auknar ráðstöfunartekjur. Þá hafi jafnframt verið eitthvað um framvirkar stöður á markaði í byrjun árs þar sem veðjað var á hækkun krónunnar. Nú væri verið að vinda ofan af því á sama tíma og lífeyrissjóðir væru að fara erlendis með fjármuni.

Bankinn getur ekki haldið uppi genginu með inngripum

Krónan hefur undanfarið veikst nokkuð, þó að gengið hafi að hluta komið til baka síðustu daga. Ásgeir sagði að inngripastefna bankans gengi út á að mýkja sveiflur og að bankinn hafi komið inn á markað þrisvar í veikingarferlinu. „En á sama tíma getum við ekki fjármagnað Tene-ferðir úr forðanum,“ bætti hann við og sagði að ef áfram yrði viðskiptahalli gæti bankinn ekki haldið upp genginu með inngripum. Þá yrði bankinn frekar að hækka stýrivexti til að takmarka neysluna.

Þegar Ásgeir var á nýr spurður út í skilaboð með hækkuninni núna og hvort búast mætti við að þetta væri toppurinn á vaxtahækkunarferlinu sagði Ásgeir að enginn ætti að trúa því að bankinn myndi ekki hækka vexti meira. Það gæti hæglega gerst ef staðan versnaði. Ekki yrðu hins vegar hækkaðir vextir nema nauðsyn væri á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert