Endurmat á íbúafjölda landsins, í kjölfar nýs manntals Hagstofunnar, gæti leitt til endurmats á íbúðaþörf á Íslandi.
Samkvæmt manntalinu, sem kynnt var í síðustu viku, bjuggu um 359 þúsund manns á Íslandi í byrjun síðasta árs, eða um tíu þúsund færri en áður var talið.
Skýringin er fyrst og fremst vantalning á fjölda íslenskra og erlendra ríkisborgara sem flytja af landi brott.
Rætt er við Ernu Björgu Sverrisdóttur aðalhagfræðing Arion banka um þetta endurmat í ViðskiptaMogganum í dag.
Erna Björg segir að ef rétt reynist sé íbúðaþörf út frá íbúafjölgun því hugsanlega ofmetin en mikið hafi einmitt verið rætt um skort á íbúðum, með hliðsjón af tölum um öra íbúafjölgun síðustu ár. Til að setja mismuninn á manntalinu og fyrri áætlun í samhengi þá er hann ríflega tvöfaldur íbúafjöldi Seltjarnarness, en þar bjuggu tæplega fimm þúsund manns síðustu áramót skv. hinum opinberu tölum Hagstofunnar.
Erna segir nýjan veruleika eiga eftir að birtast á íbúðamarkaði. Hækkanir komi á óvart.
Lesa má meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.