Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna á Austfjörðum vegna skriðuhættu. Hreyfing hefur mælst í Neðri-Botnum og Þófa en sú mesta hefur verið á Búðarhrygg.
Var þetta ákveðið í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands þar sem spáð er töluverðri rigningu áfram á svæðinu næstu daga, einkum fimmtudag og föstudag.
Mikið hefur rignt á svæðinu í nóvember og er grunnvatnsstaða há þar sem hún er mæld, á Seyðisfirði og Eskifirði, og má gera ráð fyrir að hún sé almennt há í landshlutanum.
Hlýna tekur á Austurlandi í nótt og mun þann snjó sem þar féll í dag taka upp, en við þessar aðstæður eykst skriðuhætta.