Jarðskjálfti af stærðinni 3,0 mældist í Öræfajökli klukkan rétt rúmlega 10 í morgun en nokkrir skjálftar hafa mælst í jöklinum í dag og í gær. Skjálftinn fannst á bæjum í nágrenni jökulsins.
Í gærkvöldi mældist jarðskjálfti af stærðinni 3,9 í Mýrdalsjökli laust fyrir klukkan átta en fleiri fylgdu í kjölfarið. Þeir stærstu 3,8 kl. 20:07 og 3,5 kl. 20:11 en skjálftarnir fundust í Skaftártungum, að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Síðast varð skjálfti stærri en 3,0 í Öræfajökli í október 2018. Haustið 2017 og fram til byrjun árs 2019 urðu hrinur í fjallinu með nokkru millibili en síðan þá hefur verið frekar rólegt á þessum slóðum.