Eyrún Guðmundsdóttir, grunnskólakennari í Seljahverfinu í Breiðholti, er í erfiðri stöðu en hún stendur frammi fyrir því að þurfa að sannfæra embættismenn um að hún hafi gengið í hjónaband af annarri ástæðu en þeirri að gera eiginmanninum kleift að dvelja áfram á Íslandi.
Eiginmanni hennar, Revazi Shaverdashvili frá Georgíu, verður vísað úr landi að óbreyttu eftir nokkra daga. Tjáðu þau mbl.is að Útlendingastofnun teldi hjónabandið vera málamyndahjónaband, einungis í því skyni að Shaverdashvili fái endurnýjun á dvalarleyfi á Íslandi, jafnvel þótt hún sé nú barnshafandi.
Ef erlendir ríkisborgarar giftast íslenskum ríkisborgurum, þá fá þeir dvalarleyfi á Íslandi. Þannig er regluverkið en Útlendingastofnun virðist telja að maðkur sé í mysunni. Þau Eyrún og Revazi segja ábendingu hafa komið frá lögreglumanni þess efnis.
„Fyrst fékk hann dvalarleyfi í eitt ár en þegar við sóttum um framlengingu á dvalarleyfinu var því hafnað. Við erum sökuð um að stofna til málamyndarhjúskapar en lögreglan var þá farin að skoða okkur. Við erum því að reyna að sannfæra Útlendingastofnun um að við séum ekki gift til málamynda og lögreglan reynir að sannfæra Útlendingastofnun um að við séum gift til málamynda,“ segir Eyrún en ýmsir í hennar baklandi hafa sent umsagnir til Útlendingastofnunar án árangurs. Hvort heldur fjölskyldumeðlimir hennar eða vinnufélagar hjá Suðurhlíðarskóla.
Þau segja Útlendingastofnun hafa gert aldursmuninn tortryggilegan en Eyrún er 28 ára og Revazi er 39 ára. Dæmi nú hver fyrir sig. Eyrún segir einnig að nefnt hafi verið að hún hafi lánað Revazi fé en auk þess hafa þau sent fé til Georgíu þar sem þau eru að reisa sér hús.
Síðasta föstudag fengu þau bréf þess efnis að þau þurfi að sannfæra Útlendingastofnun um að þau séu ekki gift til málamynda því annars verði Revazi vísað úr landi.
„Ég veit hreinlega ekki hvað við getum gert vegna þess að stofnunin segir bara nei. Við höfum sýnt þeim gögn um að við séum gift og alls kyns myndir af okkur saman síðustu árin. Ef þau gætu sagt okkur hvað við ættum að gera til að sannfæra þau þá myndum við gera það en mín upplifun er sú að engu máli skipti hvaða gögn við komum með til þeirra. Ég veit ekki hvað fleira er hægt að gera og þess vegna vildi ég vekja athygli á þessu,“ segir Eyrún en hún er ekki lengur kona einsömul í sínum meinta ástlausa hjúskap.
„Nú er enn meira í húfi hjá okkur því ég er komin tvo mánuði á leið með okkar fyrsta barn og það er von á barninu í júní. Ég hafði nú ekki hugsað mér að tilkynna fólki á mbl.is að ég væri barnshafandi en það er lítið annað að gera í þeirri stöðu sem við erum,“ segir Eyrún.
Revazi Shaverdashvili er frá höfuðborginni Tbilisi og kom til Íslands árið 2018 og starfaði fyrst um sinn hjá Dominos. Þar kynntist hann Eyrúnu sem þá starfaði þar. Shaverdashvili starfar í dag við að leggja parket. Var hann í þrjá mánuði hjá Dominos en fljótlega eftir það segjast þau hafa dregið sig saman og hafi átt í ástarsambandi síðan. Þau giftu sig hjá sýslumanni árið 2020 þegar samkomubann var á Íslandi.
Eyrún segir að til hafi staðið að bjóða vinum og skyldmennum til veislu þegar samkomutakmörkunum var aflétt þótt ekki hafi orðið af því. Revazi segir að ættingjar sínir í Georgíu séu í startholunum með stóra veislu þegar þau geta farið þangað í heimsókn.
Blaðamaður veitir því athygli að þau eru ekki með hringa til merkis um giftingu eða trúlofun. Útskýra þau að samkvæmt hefðum í Georgíu þá skaffi foreldrar hringana. Eyrúnar bíði hringur sem upphaflega hafi verið í eigu ömmu Revazi.
Revazi segist upphaflega hafa komið til Íslands til að vinna en viðurkennir að hafa starfað fyrst um sinn án atvinnuleyfis og lögreglunni sé kunnugt um það. Þótt blaðamaður vilji ekki efast um hæfni embættismanna og lögreglumanna til að skera úr um hvenær fólk sé ástfangið og hvenær ekki, þá veltir hann fyrir sér hvort afstöðu Útlendingastofnunar megi rekja til kergju í sambandi við hvernig Revazi fór að eftir að hann kom fyrst til landsins.
„Ég hef fengið það á tilfinninguna. Ég fór í yfirheyrslu hjá lögreglunni og upplifði hana þannig að lögreglumaðurinn væri búinn að ákveða fyrir fram að ég væri sek. Ég sá það bara á honum enda skipti engu máli hvað ég sagði. Þarna virtist sekt uns sakleysi er sannað gilda frekar en saklaus uns sekt er sönnuð. Einnig fannst mér athyglisvert að úrskurðurinn frá kærunefnd útlendingamála er dagsettur 13. júli en við höfðum skilað gögnum til þeirra 11. júlí. Ég reikna með að það taki nú einhvern tíma að skrifa úrskurð sem þennan,“ segir Eyrún og Revazi spyr hvers vegna Eyrún ætti að gerast sek um hjúskap á ólöglegum forsendum.
„Hvað myndi hún græða á því? Hún hefur ekki fengið fé frá mér. Enda höfum við boðið Útlendingastofnun að koma í heimsókn til okkar en hingað hefur enginn komið,“ segir Revazi og bætir við að hann sé minna spenntur fyrir því en áður að búa á Íslandi eftir þessa upplifun. Hann hafi einnig búið annars staðar á Norðurlöndunum og geti alveg hugsað sér að búa annars staðar en á Íslandi. En þar sem Eyrún sé barnshafandi sé mikilvægast fyrir hana að þau séu áfram á Íslandi.
Fari svo að Revazi verði sendur úr landi, hvað tekur þá við hjá Eyrúnu?
„Ég myndi fara með honum en ég veit ekki hvert við myndum fara. Hann á fjölskyldu í Georgíu en það er ansi langt ferðalag til og frá Íslandi. Ég á einnig skyldmenni á Norðurlöndunum og væri þá nær Íslandi. Ég ætla alla vega að fara í læknisheimsóknir vegna barnsins á Íslandi. Ég kæri mig ekki um að gera það í landi þar sem ég þekki ekkert til. Það væri því þægilegast fyrir mig að vera nálægt Íslandi til að ég geti flogið heim. En við þurfum að fara út fyrir Schengen-svæðið ef við förum,“ segir Eyrún Guðmundsdóttir.