„Við erum að skoða hvort þarna sé tenging eða ekki,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um reyksprengju sem varpað var inn á skemmtistaðinn Paloma við Naustina í miðbæ Reykjavíkur í nótt.
Forvitnaðist mbl.is um það hjá Margeiri hvort þar væri tenging við atburði liðinna daga í svokölluðu Bankastrætismáli. Hann segist telja að þarna séu tengsl en það komi í ljós síðar.
Þá stakk 15 ára piltur jafnaldra sinn í Grafarvogi í nótt en sá er ekki í lífshættu að sögn Margeirs. Er árásarmaðurinn í haldi lögreglu en það mál er ekki talið tengjast hnífaárásinni í síðustu viku eða hótunum í tengslum við hana.