Annar mannanna sem setið hefur verið í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa skipulagt hryðjuverk hér á landi hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald næstu tvær vikurnar. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is. Tilhögun gæslunnar er með sama hætti og áður.
Ekki er enn búið að taka fyrir beiðni héraðssaksóknara um áframhaldandi varðhald yfir hinum manninum, en farið var fram á að þeir myndu báðir sæta varðhaldi áfram næstu tvær vikur.
Mennirnir hafa nú þegar setið í varðhaldi í níu vikur og verða þær því ellefu þegar þessi úrskurður rennur út. Að hámarki er hægt að fá gæsluvarðhaldsúrskurði í tólf vikur án þess að gefa út ákæru.