Ómar Friðriksson
„Þetta var bara samtal og Katrín vildi fá að heyra hver staðan væri. Það eru boðaðir fundir hjá Ríkissáttasemjara í hópum í dag og við munum sjá bara hvernig dagurinn verður hvernig samtalið verður við samningaborðið núna á eftir," sagði Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ og formaður Rafiðnaðarsambandsins í samtali við mbl.is eftir fund með forsætisráðherra í Stjórnarráðshúsinu í morgun.
Samninganefndir bæði samflots Starfsgreinasambandsfélaganna og verslunarmanna annars vegar og samflots iðnaðar- og tæknifólks hins vegar með Samtökum atvinnulífsins voru boðaðar til áframhaldandi viðræðna hjá Ríkissáttasemjara kl. 10 í morgun.
Þessum fundum seinkaði aðeins vegna fundarins með forsætisráðherra en eru nú að fara í gang að sögn Kristjáns. Spurður hvort forsætisráðherra hafi lofað einhverjum aðgerðum til að greiða fyrir framhaldi viðræðnanna svaraði Kristján því neitandi. ,,Þetta var bara ágætis samtal sem við áttum og fórum yfir stöðuna. Það var gott að finna að það væri áhugi þarna," segir hann.