Ályktun Íslands og Þýskalands um að stofnuð verði sjálfstæð og óháð rannsóknarnefnd sem safna á upplýsingum og gögnum sem nýst geta til að draga þá til ábyrgðar sem ofsótt hafa friðsama mótmælendur í Íran undanfarnar vikur, var í dag samþykkt af mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.
Ályktunin var lögð fram í tengslum við sérstakan aukafund mannréttindaráðsins í dag um versnandi ástand mannréttindamála í Íran.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og þýska starfsstystir hennar Annalena Baerbock, tóku þátt í umræðunni, að því er fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins.
„Undanfarnar vikur hafa fjölmenn mótmæli geisað í Íran þar sem konur og stúlkur í broddi fylkingar hafa krafist þess að njóta grundvallarmannréttinda. Stjórnvöld hafa tekið mótmælendum af fádæma hörku og er talið að á fjórða hundrað hafi látið lífið síðan mótmælahrinan hófst, þar af um fjörutíu börn, og þúsundir sitja í varðhaldi. Ísland og Þýskaland fóru því fram á við mannréttindaráðið að sérstakur aukafundur yrði haldinn á vettvangi ráðsins og studdi á sjötta tug aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna þá beiðni,“ segir í tilkynningunni.
Í ræðu Þórdísar Kolbrúnar minntist utanríkisráðherrann Jina Mahsa Amini, ungrar konu af kúrdískum uppruna sem lést í varðhaldi írönsku siðgæðislögreglunnar í september síðastliðnum. Dauði hennar var kveikjan að mótmælunum sem nú standa yfir.
„Það er ofvaxið mínum skilningi að stjórnvöld í nokkru ríki ákveði að brjóta svo víðtækt og alvarlega á mannréttindum borgaranna sem þeim ber einmitt skylda til að vernda. Um leið dáist ég að kjarki fólksins í Íran sem leggur sig í lífshættu við að krefjast á friðsaman hátt bæði frelsis og jafnréttis,“ sagði Þórdís Kolbrún í ávarpinu.