Breska sendiráðið á Íslandi varar breska ríkisborgara á leið til Íslands við skemmtanalífinu í miðborg Reykjavíkur vegna átakanna sem hafa átt sér stað milli glæpahópa síðastliðna viku.
Í tilkynningu sem birtist á Facebook-síðu sendiráðsins kemur fram að þjófnaður og andfélagsleg hegðun geti átt sér stað, sérstaklega í kringum bari þar sem fólk safnast saman seint að kvöldi til í miðborginni. Þá er líka minnst á stunguárásina á Bankastræti Club sem átti sér stað síðasta fimmtudag.
Eru ferðalangar hvattir til að vera á varðbergi og gera varrúðarráðstafanir.
Skjáskot með skilaboðum hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem varað er við yfirvofandi hefndarárás í miðborginni næstu helgi. Ekki liggur fyrir hve trúverðug þessar hótanir eru en lögreglan í höfuðborginni rannsakar það nú. Embættinu þykir þó ekki tilefni til þess að hvetja fólk til þess að halda sig frá skemmtanalífinu.
Fyrr í dag setti bandaríska sendiráðið á Facebook-síðu sína viðvörun til bandarískra ríkisborgara um að fara varlega í miðbæ Reykjavíkur núna um helgina.