Lykilbúnaður greiðslukerfis Strætó, skannar Klapp-apps sem notaðir eru í vögnunum, virka illa og stendur til að skipta þeim öllum út.
Alvarleg mistök virðast hafa verið gerð með kaupum og innleiðingu á greiðslukerfi Strætó bs., að því er fram kom í kynningu Strætó á ársfundi byggðasamlagsins, Sorpu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS).
Farþegar Strætó hafa kvartað undan greiðslukerfinu síðan það var tekið í notkun fyrir um ári síðan.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að þetta komi sér illa fyrir Strætó, sem megi ekki við því að missa tekjur.
Fram hafi komið í kynningu stjórnenda á ársfundinum að félagið væri á mörkum þess að vera rekstrarhæft og að félagið hafi ekki átt fyrir reikningum fyrir síðustu helgi.
Um þetta fjallar Kjartan jafnframt í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.