Stjórn Samtakanna '78 segir konu sem gegndi trúnaðarstörfum innan samtakanna, og hefur nú verið vikið frá störfum í kjölfar alvarlegra ásakana um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, ekki hafa starfað með börnum eða ungmennum innan samtakanna.
Konan var fyrrverandi formaður félagaráðs, og var því sjálfboðaliði en sjálfboðaliðar samtakanna starfa aldrei einir á vettvangi sem er liður í því að tryggja öryggi bæði gesta og sjálfboðaliðanna sjálfra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökunum '78.
Stjórninni bárust í vikunni ábendingar vegna málsins og var aðgerðaráætlun Samtakanna '78 vegna ofbeldis virkjuð um leið. Málið er það nú í faglegu ferli og hefur einnig verið tilkynnt til viðeigandi yfirvalda.
Konunni hefur nú verið vikið frá störfum og starfar ekki lengur á vettvangi Samtakanna '78.
„Innan Samtakanna ’78 er boðið upp á fjölbreytilega og faglega ráðgjöf til hinsegin fólks eða vegna mála sem snertir þau og slík ráðgjöf stendur þolendum þessa máls til boða að kostnaðarlausu, líkt og öðrum,“ segir jafnframt í tilkynningunni.