Eva Sjöfn Helgadóttir, þingmaður Pírata, gagnrýndi að 17 ára einstaklingur sæti nú gæsluvarðhald í fangelsi í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.
Í gær var greint frá því að alls væru fimmtán í gæsluvarðhaldi vegna árásar á skemmtistaðnum Bankastræti Club, og er sá yngsti 17 ára en sá elsti á fertugsaldri.
Eva Sjöfn beindi spurningu sinni til Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og spurði til hvaða aðgerða hann hafi gripið til þess að koma í veg fyrir að brotið sé á börnum, „því að þau ættu aldrei að sætta þessari meðferð“.
Jón sagði það vera mikið áhyggjuefni að raunveruleikinn í íslensku samfélagi væri vaxandi afbrot, sérstaklega á meðal ungra karlmanna.
„Við því verður að bregðast með margvíslegum hætti,“ sagði hann og bætti við að í mörgum tilfellum í máli skemmtistaðarins væri um óharðnaða unglinga að ræða.
„Vegna rannsóknarhagsmuna þá getur þurft að einangra fólk í ákveðin tíma. Ég fullyrði það að bæði lögregla, löggæsla og fangelsismálayfirvöld beita sér fyrir því að það sé gert með eins mildum hætti eins og hægt er, og tillit tekið til ungs aldurs.“
Jón sagði að hann hafi átt samtal um málið við fangelsismálastjóra.
„Við sjáum mikil tækifæri í því að grípa til þeirra ráðstafana að bæði félagsþjónusta og sálfræðiþjónusta – einhver meðferðarúrræði og hjálp til þeirra sem vilja hana sérstaklega þiggja – verði í boði.“
Eva Sjöfn benti þá að ekki væri að ræða um ungt fólk eða unga einstaklinga heldur börn. Hún sagði einangrun vera mjög íþyngjandi refsingu og sérstaklega hættulega börnum.
„Það er á ábyrgð hæstvirts ráðherra að tryggja heilsu barna í réttarvörslukerfinu. Hvað ætlar ráðherra að gera til þess að laga þessa óásættanlegu stöðu?“ sagði hún.
Jón sagði að úrræðið væri ekki notað nema í algjörum undantekningartilfellum og þegar að mikið liggur við. Þá sé reynt að hafa einangrunina í eins skamman tíma og mögulegt er.