Þórólfur ráðinn tímabundið til ráðuneytisins

Þórólfur Guðnason er formaður starfshópsins.
Þórólfur Guðnason er formaður starfshópsins.

Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnalæknir, hefur verið ráðinn tímabundið til heilbrigðisráðuneytisins til að leiða þverfaglegan starfshóp við að móta framtíðarsýn og áætlun um aðgerðir til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Starfshópurinn hefur það hlutverk að auka þverfaglegt samstarf til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Hópnum er ætlað að móta framtíðarsýn og aðgerðaáætlun til næstu tíu ára með tillögum um leiðir til að hrinda aðgerðunum í framkvæmd. Liður í verkefni hópsins er enn fremur að vinna að vitundarvakningu í samfélaginu til að auka þekkingu almennings á sýklalyfjaónæmi, hvað í því felst og hvað sé til ráða. 

Um er að ræða samstarfsverkefni heilbrigðisráðuneytisins, matvælaráðuneytisins og ráðuneytis umhverfis-, orku- og loftslagsmála.

Helsta heilbrigðisógnin í dag

Í tilkynningunni kemur fram að alþjóðastofnanir sem starfi á sviði heilbrigðismála, matvælaöryggis og umhverfismála telji sýklalyfjaónæmi eina helstu heilbrigðisógnina sem steðji að fólki í dag.

„Þessar stofnanir hafa hvatt þjóðir til að grípa til allra mögulegra ráða til að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á grundvelli hugmyndafræði ,,Einnar heilsu“ (e. One Health) sem byggir á því að heilbrigði manna, dýra og umhverfis sé samtengt sem kalli á heildstæð og samræmd viðbrögð.“

Töluverð vinna hafi átt sér stað hér landi til að sporna við sporna gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Skýrsla starfshóps sem fjallaði um sýklalyfjaónæmar bakteríur í mönnum, dýrum, sláturafurðum hafi verið kynnt í ríkisstjórn í september 2021. Þar sem meðal annars var lagt til að skipaður yrði þverfaglegur hópur til að vinna að aðgerðum á þessu sviði. 

Skipan hópsins

  • Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnalæknir, án tilnefningar, formaður
  • Anna Margrét Halldórsdóttir, tilnefnd af sóttvarnalækni
  • Hólmfríður Þorsteinsdóttir, tilnefnd af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
  • Jón Steinar Jónsson, tilnefndur af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
  • Karl Gústaf Kristinsson, tilnefndur af Landspítala
  • Lilja Þorsteinsdóttir tilnefnd af Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum
  • Vigdís Tryggvadóttir, tilnefnd af Matvælastofnun.
  • Guðlín Steinsdóttir, án tilnefningar og jafnframt starfsmaður nefndarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert