„Ég sá fljótlega út frá gögnunum mínum að þegar Öræfajökull hörfaði á öldum áður þá gerðist það hratt í jarðsögulegu tilliti. Í kjölfar þess fylgdu eldgos, miðað við gjóskulög sem ég kortlagði á svæðinu. Það er mjög góð fylgni á milli jökulhörfunar og misstórra eldgosa í Öræfajökli. Nú bráðna jöklarnir okkar sem aldrei fyrr,“ segir dr. Hjalti Jóhannes Guðmundsson landfræðingur. Hann rannsakaði eldvirknisögu og jöklabreytingar í Öræfajökli vegna doktorsritgerðar sinnar.
Nokkrir jarðskjálftar hafa mælst í Öræfajökli undanfarið. Eins var þar talsverð skjálftavirkni 2017-2018.
Hjalti segir að jöklarnir okkar séu mjög viðkvæmir fyrir lofthitabreytingum og bregðist fljótt við þeim. Því getur fylgt aukin hætta á eldvirkni ef miðað er við að það sé samband á milli jökulhörfunar og eldvirkni í fjallinu.