Ráðuneytið svarar Logos og lífeyrissjóðunum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íbúðalána­sjóður, sem síðar fékk nafnið ÍL-sjóður, var hvorki lagður niður né með nein­um hætti sam­einaður al­menn­um rekstri rík­is­sjóðs. Þetta kem­ur fram í yf­ir­lýs­ingu frá fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­inu, vegna til­kynn­ing­ar sem líf­eyr­is­sjóðir sendu fjöl­miðlum í gær og vísað var í álits­gerð lög­fræðistof­unn­ar Logos um mál­efni ÍL-sjóðs.

Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra til­kynnti í síðasta mánuði að vegna stöðu ÍL-sjóðs, þar sem gert væri ráð fyr­ir að tap sjóðsins væri 1,5 millj­arðar á mánuði næstu árin, þá legði hann upp með þrjár leiðir fyr­ir sjóðinn. Ef ríkið ætti að reyna að koma í veg fyr­ir áfram­hald­andi vax­andi tap væri hægt að setja sjóðinn í greiðsluþrot sem myndi gjald­fella skuld­ir sjóðsins þannig að til rík­is­ábyrgðar kæmi eða að hægt væri að fara í samn­ingaviðræður við skulda­bréfa­eig­end­ur, sem að stærst­um hluta eru ís­lensk­ir líf­eyr­is­sjóðir. Sagðist hann ætla að leggja fram frum­varp um greiðsluþrot við árs­lok ef ekki næðist sam­komu­lag.

Líf­eyr­is­sjóðir tóku þessu boði ekk­ert sér­lega vel og í gær var greint frá lög­fræðiáliti Logos þar sem fram kem­ur að laga­leg staða sjóðanna sé afar sterk. Er meðal ann­ars vísað til þess að fyr­ir­huguð laga­setn­ing brjóti í bága við stjórn­ar­skrá og mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu. Þannig feli slíkt inn­grip í sér eign­ar­nám eða skerðingu á eign­ar­rétt­ind­um.

Einnig var til­tekið í til­kynn­ing­unni að með breyt­ing­um á Íbúðalána­sjóði árið 2019 hafi ÍL-sjóður orðið hluti af ráðuneyt­inu en ekki sér­stök und­ir­stofn­un. Þar er sagt að „fjár­málaráðherra beri beina ábyrgð á skuld­bind­ing­um ÍL-sjóðs eft­ir þær breyt­ing­ar sem urðu á Íbúðalána­sjóði við laga­breyt­ingu árið 2019. Í áliti LOGOS er vitnað til þess að ÍL-sjóður hafi orðið til þegar Íbúðalána­sjóði var skipt upp með lög­um árið 2019 en með þeim var fjár­málaráðherra fal­in yf­ir­um­sjón með sjóðnum. Við breyt­ing­una hafi ÍL-sjóður orðið hluti verk­efna fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is sem fari með dag­lega stjórn sjóðsins. Þannig sé ÍL-sjóður ekki und­ir­stofn­un ráðherra, enda hafi fjár­málaráðherra stjórn­sýslu- og rekstr­ar­legt for­ræði yfir sjóðnum. ÍL-sjóður telj­ist því ekki sér­stök und­ir­stofn­un, held­ur hluti ráðuneyt­is­ins. Þannig sé ís­lenska ríkið skuld­ari frek­ar en ábyrgðarmaður.“

Þessu er ráðuneytið ekki sam­mála og seg­ir þenn­an skiln­ing ekki í sam­ræmi við ákv­arðanir Alþing­is frá 2019. Þá hafi tvær stofn­an­ir verið stofnaðar, ann­ars veg­ar HMS og hins veg­ar Hús­næðis­sjóður. Er vísað í lög um þær stofn­an­ir, lög 137/​2019, en þar seg­ir:

„Íbúðalána­sjóður, sem fær nafnið ÍL-sjóður við gildis­töku laga þess­ara, sinn­ir áfram þeim verk­efn­um og fer með þau rétt­indi, skyld­ur, eign­ir og skuld­bind­ing­ar Íbúðalána­sjóðs sem flytj­ast ekki til Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar og Hús­næðis­sjóðs.“

Vegna þessa var Íbúðalána­sjóður hvorki lagður niður né með nein­um hætti sam­einaður al­menn­um rekstri rík­is­sjóðs að mati ráðuneyt­is­ins. Til þess hefði þurft sér­staka lög­gjöf sem sé ekki til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka