Ráðuneytið svarar Logos og lífeyrissjóðunum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íbúðalánasjóður, sem síðar fékk nafnið ÍL-sjóður, var hvorki lagður niður né með neinum hætti sameinaður almennum rekstri ríkissjóðs. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, vegna tilkynningar sem lífeyrissjóðir sendu fjölmiðlum í gær og vísað var í álitsgerð lögfræðistofunnar Logos um málefni ÍL-sjóðs.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tilkynnti í síðasta mánuði að vegna stöðu ÍL-sjóðs, þar sem gert væri ráð fyrir að tap sjóðsins væri 1,5 milljarðar á mánuði næstu árin, þá legði hann upp með þrjár leiðir fyrir sjóðinn. Ef ríkið ætti að reyna að koma í veg fyrir áframhaldandi vaxandi tap væri hægt að setja sjóðinn í greiðsluþrot sem myndi gjaldfella skuldir sjóðsins þannig að til ríkisábyrgðar kæmi eða að hægt væri að fara í samningaviðræður við skuldabréfaeigendur, sem að stærstum hluta eru íslenskir lífeyrissjóðir. Sagðist hann ætla að leggja fram frumvarp um greiðsluþrot við árslok ef ekki næðist samkomulag.

Lífeyrissjóðir tóku þessu boði ekkert sérlega vel og í gær var greint frá lögfræðiáliti Logos þar sem fram kemur að lagaleg staða sjóðanna sé afar sterk. Er meðal annars vísað til þess að fyrirhuguð lagasetning brjóti í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þannig feli slíkt inngrip í sér eignarnám eða skerðingu á eignarréttindum.

Einnig var tiltekið í tilkynningunni að með breytingum á Íbúðalánasjóði árið 2019 hafi ÍL-sjóður orðið hluti af ráðuneytinu en ekki sérstök undirstofnun. Þar er sagt að „fjár­málaráðherra beri beina ábyrgð á skuld­bind­ing­um ÍL-sjóðs eft­ir þær breyt­ing­ar sem urðu á Íbúðalána­sjóði við laga­breyt­ingu árið 2019. Í áliti LOGOS er vitnað til þess að ÍL-sjóður hafi orðið til þegar Íbúðalána­sjóði var skipt upp með lög­um árið 2019 en með þeim var fjár­málaráðherra fal­in yf­ir­um­sjón með sjóðnum. Við breyt­ing­una hafi ÍL-sjóður orðið hluti verk­efna fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is sem fari með dag­lega stjórn sjóðsins. Þannig sé ÍL-sjóður ekki und­ir­stofn­un ráðherra, enda hafi fjár­málaráðherra stjórn­sýslu- og rekstr­ar­legt for­ræði yfir sjóðnum. ÍL-sjóður telj­ist því ekki sér­stök und­ir­stofn­un, held­ur hluti ráðuneyt­is­ins. Þannig sé ís­lenska ríkið skuld­ari frek­ar en ábyrgðarmaður.“

Þessu er ráðuneytið ekki sammála og segir þennan skilning ekki í samræmi við ákvarðanir Alþingis frá 2019. Þá hafi tvær stofnanir verið stofnaðar, annars vegar HMS og hins vegar Húsnæðissjóður. Er vísað í lög um þær stofnanir, lög 137/2019, en þar segir:

„Íbúðalánasjóður, sem fær nafnið ÍL-sjóður við gildistöku laga þessara, sinnir áfram þeim verkefnum og fer með þau réttindi, skyldur, eignir og skuldbindingar Íbúðalánasjóðs sem flytjast ekki til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Húsnæðissjóðs.“

Vegna þessa var Íbúðalánasjóður hvorki lagður niður né með neinum hætti sameinaður almennum rekstri ríkissjóðs að mati ráðuneytisins. Til þess hefði þurft sérstaka löggjöf sem sé ekki til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert