„Staðreyndavilla“ unnin upp úr skýrslu ráðherra

Íslensku lífeyrissjóðirnir sendu frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar fjármála- og …
Íslensku lífeyrissjóðirnir sendu frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem og viðtala við fjármálaráðherra, vegna ÍL-sjóðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orðalag í tilkynningu íslensku lífeyrissjóðanna, sem fjármálaráðuneytið hefur vísað til sem staðreyndavillu, er unnið upp úr skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis um málið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá íslensku lífeyrissjóðunum vegna umfjöllunar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem og viðtala við fjármálaráðherra, vegna ÍL-sjóðs.

Orðalagið sem vísað er til er unnið upp úr eftirfarandi setningu í skýrslu ráðherra: „ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs og var stofnaður með lögum nr. 151/2019 sem tóku gildi 31. desember 2019.“

Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að í álitsgerð LOGOS sé hvergi sagt eða á því byggt að ÍL-sjóður hafi orðið til á þessum tímapunkti heldur sé þar einmitt rakið að með lagabreytingum árið 2019 hafi íbúðalánasjóðir fengið nafnið ÍL-sjóður.

„Í álitinu er síðan rökstutt að efnislegar breytingar sem að lögum urðu á stjórnsýslulegri stöðu Íbúðalánasjóðs á þessum tíma og síðari framkvæmd um málefni hans leiði til þess að ÍL-sjóður geti ekki talist sjálfstætt stjórnvald. Þótt með lögum sé gert ráð fyrir tilvist sjóðsins og að hann lúti yfirstjórn ráðherra er til þess að líta að ráðherrann hefur einnig yfirumsjón með verkefnum sjóðsins og fer með daglega stjórn hans og fjárreiður,“ segir í yfirlýsingunni.

Af þeim sökum verði sjóðurinn ekki talinn sérstök undirstofnun ráðherra og lægra sett stjórnvald í skilningi hefðbundinnar stigskiptrar stjórnsýslu.

„Því beri að líta svo á að ÍL-sjóður sé hluti af ráðuneytinu. Af því leiðir að líta ber á íslenska ríkið sem skuldara samkvæmt skuldabréfunum eða að ríkið standi í beinni ábyrgð fyrir efndum þeirra. Um þetta vísast nánar til álitsgerðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka