Vinnumarkaðsmódelið á Íslandi brotið

Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra í ráðherrabústaðnum í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra í ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjáramála og efnahagsráðherra, segir í samtali við mbl.is að „vinnumarkaðsmódelið“ sé brotið á Íslandi. Hann segir engan samhljóm vera um það svigrúm sem sé til staðar í upphafi hverrar kjaralotu í kjaraviðræðum.

Tilkynnt var um 0,25 prósentustiga hækkun stýrivaxta á miðvikudaginn. VR sleit viðræðum við SA í gærkvöldi en vaxta­hækk­unin ruddi út þeirri vinnu sem hafði verið unn­in við samn­inga­borðið á milli VR og Starfs­greina­sam­bands­ins ann­ars veg­ar og SA hins veg­ar, að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.

Fjármálaráðherra segir vaxtahækkunina ekki koma að öllu leyti á óvart en hann hafi verið kominn með væntingar um að verðbólgutoppnum hafi verið náð.

„Það eru síður en svo gleðiefni að vextir séu enn að hækka en við getum einfaldlega ekki litið í hina áttina þegar allar tölur segja okkur að spennan sé mjög mikil í hagkerfinu og verðbólguhorfur hafa heldur verið að versna,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

„Það er mjög mikið undir að það takist farsæl niðurtaða í þessari kjaralotu. Manni sýnist að þessi síðasta vaxtahækkun hafi breytt forsendum þeirra sem sátu við borðið eitthvað.“

Allir þurfi að sætta sig við stöðuna

„Ég held að það þurfi allir að sætta sig við það að staðan er eins og hún er og verkefnið hlýtur að vera að verja þennan mikla vöxt kaupmáttar sem hefur náðst á undanförnum árum. Verkefnið hlýtur að vera að reyna að verja þá stöðu og finna nýtt jafnvægi til að halda lífskjarasókninni áfram,“ segir Bjarni.

„Það sem ég hef haft athugasemdir við er vinnumarkaðsmódelið á Íslandi er brotið. Það birtist okkur í því að það er enginn samhljómur um það svigrúm sem er til staðar hverju sinni við upphaf lotunnar. Það birtist okkur í mjög miklum fjölda gerðra kjarasamninga og í að ólíkir hópar hafa mjög ólíkar kröfur sem eru ósamhæfðar. Það eitt og sér er sjálfstætt vandamál í íslenska vinnumarkaðsmódelinu, hvernig eigi að greiða úr því.“

„Við höfum langa hefð fyrir því að vera að sækja meiri nafnlaunahækkanir heldur en aðrir og því fylgir að jafnaði hærra verðbólgustig og að jafnaði hærra vaxtastig,“ segir Bjarni.

Hver er lausnin á þessu vandamáli?

„Ég tel að við þurfum að færa okkur nær því sem við sjáum á Norðurlöndunum.“

„Við höfum gert margar grundvalla-kerfisbreytingar síðasta áratuginn en það er ein breyting þar sem ekkert hefur gerst og það er íslenska vinnumarkaðsmódelið,“ segir Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert