VR sleit í gærkvöldi samningaviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins, en rætt var um skammtímasamning til áramótanna 2023/24. Þetta hefur mbl.is fengið staðfest frá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, en Vísir greinir fyrst frá slitunum og segir ástæðuna vera ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í gær þegar hann lýsti yfir stuðningi við vaxtahækkun Seðlabankans.
Fyrr í vikunni tilkynnti peningastefnunefnd bankans um 0,25 prósentustiga hækkun stýrivaxta og fór sú ákvörðun öfugt ofan í bæði verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins og var í gær talið að viðræðurnar héngu á bláþræði. Eftir fund með forsætisráðherra virtist hins vegar eins og mýkri tónn væri kominn í forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar og samkvæmt upplýsingum mbl.is átti að gefa sér skamman tíma til viðræðnanna. Var af þeim sökum stefnt á stíf fundarhöld í gær og jafnvel inn í helgina.
Niðurstaðan seint í gærkvöldi var hins vegar að VR sleit viðræðum. Ekki er ljóst hvað forysta félaga innan SGS, annarra en Eflingar sem er ekki með samflotinu, verður í kjölfarið.
„Ef maður horfir á samflot iðnaðarmanna og tæknifólks sátum við svo sem bara í Karphúsinu í gær og erum að fara á fund aftur í dag eftir hádegi,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður ASÍ og forseti Rafiðnaðarsambandsins, í samtali við mbl.is um gang mála í kjaraviðræðum.
Á fundinum í dag verði farið yfir stöðuna með Samtökum atvinnulífsins. „Við erum bara að fara yfir málin innan okkar raða eins og staðan er núna,“ segir Kristján sem ekki vildi tjá sig um viðræðuslitin.
Uppfært: Ragnar Þór staðfesti slitin við mbl.is og hefur fréttin verið uppfærð samkvæmt því.