Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segist sannarlega ekki hættur í pólitík þrátt fyrir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í formannsslagi Sjálfstæðisflokksins í byrjun mánaðar. Hann telur að sú reynsla sem hann öðlaðist í kosningaslagnum gegn Bjarna muni nýtast sér vel.
Þetta kom fram í máli ráðherrans á Sprengisandi í morgun.
Guðlaugur Þór og Bjarni öttu kappi um formannsstól Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í byrjun nóvember. Bjarni hlaut 1010 atkvæði af alls 1712 greiddum, eða 59 prósent atkvæða. Guðlaugur Þór hlaut 40 prósent atkvæða, eða 687 talsins. Auðir og ógildir seðlar voru 9 og aðrir fengu 3 atkvæði.
Er þáttastjórnandi spurði Guðlaug Þór hvort hann hygðist fara aftur í formannsframboð benti Guðlaugur Þór á að skammur tími væri liðinn frá landsfundi en bætti við að hann væri sannarlega ekki hættur í stjórnmálum.
„Ég er sannarlega ekki hættur. Þegar ég hætti þá ætla ég bara að hætta, það mun ekki fara framhjá neinum,“ sagði Guðlaugur Þór
Þá kvaðst ráðherrann ánægður með að hafa farið í framboð og benti á að sú umræða sem fór fram um stöðu flokksins hefði ekki farið fram hefði hann ekki gefið kost á sér. Ítrekaði hann skoðun sína á því að flokkurinn geti sótt meira fylgi og breikkað grasrót sína.
„Í þessu, eins og mörgu örðru, er vilji er allt sem þarf,“ sagði ráðherrann.