Lögreglan beri ábyrgð gagnvart sínu fólki

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir mikilvægt að stórefla viðbrögð lögreglu gegn skipulagðri brotastarfsemi. Spurningin um aukinn vopnaburð lögreglu sé flókinn en mikilvægt sé að auka öryggi lögregluþjóna enda sé notkun stunguvopna búin að færast í aukana.

Þetta kom fram í máli hennar í Silfrinu í dag á RÚV þar sem hún var gestur.

Spurð út í ummæli Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra sem boðaði stríð gegn skipulagðri glæpastarfsemi í síðustu viku, segir Sigríður að ráðherra sé m.a. vera að bregðast við ákalli lögreglu.

„Lögreglan þarf að vera með fleiri frumkvæðisverkefni og fleiri rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi í gangi að hverju sinni. Það er raunveruleg ógn sem að okkur steðjar. Við erum að tala um fjármunabrot og efnahagsbrot. Alvarlega skipulagða brotastarfsemi.“

Áhugi á samfélagslögreglu

Hún segir lögreglu hafa óskað eftir styrkingu í meira en áratug en mikilvægt forvarnarstarf hennar hafi til að mynda verið lagt niður í hruninu. Hún segir nú mikinn áhuga fyrir því að styrkja svokallaða samfélagslögreglumenn.

„Það er í rauninni nútímaútgáfan af þessum gömlu hverfis löggæslumönnum.“

Enginn að tala um skotvopn að staðaldri

Sigríður segir spurningu um aukin vopnaburð lögreglumanna flókna. „Það er enginn að tala um að lögregla beri skotvopn að staðaldri. Það er bara sérsveitin og hún er ekki einu sinni að staðaldri.“

Hún segir lögregluna þó bera ábyrgð gagnvart sínu fólki.

„Þegar fjölgun stunguvopna og notkun þeirra er orðin það mikil að við þurfum að fara að huga að öryggi okkar fólks þá má alveg skoða hvort það eigi til dæmis að hafa rafvarnarvopn sem eitt af mögulegum tækjum og tólum til að vinna með.  Það er í umræðunni og það hefur verið ákall lengi frá lögreglustjórum sem hafa áhyggjur af unga fólkinu sínu eða fólkinu sínu. Sem lögreglumaður veist þú aldrei í hverju þú lendir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka