Mælar Veðurstofu Íslands greindu jarðskjálfta af stærðinni 3,4 í Mýrdalsjökli laust fyrir hádegi en í dag hafa þrír skjálfar mælst yfir þremur að stærð í jöklinum.
Alls hafa 13 skjálftar mælst frá því á miðnætti og eru þeir allir staðsettir innan Kötlu öskjunnar, að því er fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar. Þar segir einnig að jarðskjálftar af þessari stærðargráðu séu ekki óalgengir á þessum slóðum og að enginn órói hafi mælst í kjölfar skjálftanna.
Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að óvenjumikil skjálftavirkni hefði verið í Mýrdalsjökli síðustu daga. Það gæti þó tengst því að mun hlýrra sé búið að vera í nóvember en áður.