Aflýsa óvissustigi

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Ríkislögreglustjóri hefur aflýst óvissustigi á Austurlandi vegna skriðuhættu. Í tilkynningu segir að þetta sé gert í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofuna.

Mikið hefur rignt fyrir austan í mánuðinum og var óvissustigi lýst yfir 23. nóvember.

Grunnvatnsstaða var þá víða há og áframhaldandi rigningu spáð.

„Frá því á föstudaginn hefur vatnsyfirborð lækkað í borholum og veðurspá gerir ráð fyrir því að þurrt verði á Austurlandi í dag og á þriðjudag,“ segir í tilkynningu.

Áfram þurfi að fylgjast með

„Á miðvikudag rignir, mest á sunnanverðum Austfjörðum, þar sem úrkoma gæti orðið rúmir 50 mm til fjalla. Frá fimmtudegi og fram yfir helgi er spáð lítilli úrkomu.“

Tekið er fram að áfram þurfi að fylgjast vel með aðstæðum á meðan grunnvatnsstaða sé há. Lítil skriðuvirkni, minnkandi hreyfing og lækkandi grunnvatnsstaða þar sem hún er mæld hafi þó orðið til þess að óvissustigi sé nú aflétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert