Ríkisstjórn helmingi framlög til íbúðauppbyggingar

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ríkisstjórnin hæstvirt helmingar framlög til húsnæðisuppbyggingar á árinu 2023. Eftir öll fögru fyrirheitin, alla blaðamannafundina, öll stóru orðin frá hæstvirtum ráðherrum Framsóknarflokksins þá er þetta niðurstaðan sem okkur var kynnt á fundi háttvirtrar fjárlaganefndar í morgun,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

„Framlögin fara úr 3,7 milljörðum króna á ári niður í 1,7 milljarð. Þannig ætlar ríkisstjórnin hæstvirt beinlínis að búa til stórfelldan samdrátt í uppbyggingu íbúða á næsta ári á Íslandi,“ sagði Kristrún.

„Ég ætlaði hreinlega ekki að trúa þessu. Þvílíkt innlegg inn í viðkvæma kjarasamninga.“

Beindi Kristrún fyrirspurn sinni að Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra og formanni Framsóknarflokksins:

„Er þetta í alvöru talað öll Framsóknar-sóknin í húsnæðismálum? Helmingi lægri framlög til uppbyggingar?“

Segir vanþekkingu Kristrúnar mikla

„Ég þakka nú háttvirtum þingmanni fyrir að taka þessa fyrirspurn upp úr því að vanþekkingin á málinu er svona mikil,“ byrjaði Sigurður Ingi svar sitt.

„Við höfðum um tvo milljarða úr að spila umfram það sem við gátum nýtt á þessu ári og tæpa tvo á næsta ári. Við hyggjumst fá heimild til þess að færa þessa tvo yfir og þannig verði um fjórir milljarðar til stofnframlaga á næsta ári, sem að mati HMS við þær aðstæður sem uppi eru […] dugi á næsta ári.“

„Við erum sem betur fer í stakk búin miðað við fjárlögin og þær fjárheimildir sem við höfum, ef við yfirfærum á milli ára, að takast vel á við árið 2023 og komast þannig af stað inn í að klára rammasamninga við sveitarfélögin.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveitarfélögin hafi búist við fjármagninu

„Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir það að tala um vanþekkingu mína hér á þessum málaflokki,“ sagði Kristrún er hún talaði öðru sinni.

Hún sagði það hafa legið fyrir að sveitarfélagin hafi búist við þessu fjármagni inn í stofnframlagakerfið.

„Það er búið að vera samræður í gangi á milli ráðuneytisins og sveitarfélaganna nákvæmlega út af þessu og hér kemur hæstvirtur ráðherra með þennan fyrirslátt.“

„Fyrst að það er ekki geta í þessari ríkisstjórn að koma fjármagninu út í stofnframlög, má ekki setja þetta í vaxtabótakerfið og styðja við fólk sem á virkilega um sárt að binda út af húsnæðisverðshækkunum þessarar ríkisstjórnar?“ spurði Kristrún að lokum.

Öllum kröfum Kristrúnar verði svarað

Sigurður Ingi sagðist sér sýnast það að í þeim fjárlögum sem verið sé er að leggja fram sé verið að svara öllum þeim kröfum sem Kristrún kallar eftir.

„Við höfum sagt að í varasjóði sé fjármagn vegna ársins 2023 sem við ætlum að beita í húsnæðismálin. Þar eru peningar, allt að tveir milljarðar, sem til að mynda verður hægt að nota í húsnæðisbætur, vaxtabætur, í stuðning við fólk og fleiri slíka þætti,“ sagði Sigurður Ingi.

Kristrún Frostadóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Kristrún Frostadóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert