„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að við séum meðvituð um hvað þessi mál eru að breytast mikið,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, en hann var aðalhöfundur skýrslu um tækniþróun í hernaði á ársfundi þingsins í Madrid um þarsíðustu helgi.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að framtíð öryggis- og varnarmála verði einkum drifin áfram af tækniþróun, sem sé nú þegar farin að hafa áhrif á framvindu hernaðar. Tæknin sem sé í þróun muni gera heri tengdari, greindari og meira á hinu stafræna sviði. Nú þegar megi sjá þess dæmi í Úkraínustríðinu.
Njáll Trausti segir að Íslendingar þurfi að bregðast við þessari þróun með því að efla þekkingu okkar innanlands og tengslin við nágrannaþjóðirnar. „Þá þurfa aðildarþjóðirnar í Atlantshafsbandalaginu ásamt vinaþjóðum okkar í norrænu ríkjunum að styrkja þekkingu og varnir landsins, því þetta eru grundvallarmál sem við erum að ræða og munu hafa gríðarleg áhrif á öryggis- og varnarmál í framtíðinni.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.