Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir í samtali við mbl.is að fundur samtakanna og Eflingar í dag hafi farið vel fram.
Hann segir að kröfugerðir í víðu samhengi hafi verið til umræðu.
„Við ræddum þetta á tiltölulega almennum nótum. Fórum yfir valkosti og möguleika í stöðunni,“ segir Halldór.
Telurðu að viðræður við Eflingu séu á réttri leið?
„Þetta er svona efnislega á þeirri leið sem ég taldi að viðræðurnar myndu vera eftir fjórða fund.“
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), sagði í viðtali í Morgunblaðinu í dag að ekki væri hyggilegt að semja til langs tíma.
Kæmi til greina að semja til styttra tíma við Eflingu?
„Málflutningur Samtaka atvinnulífsins var að þetta væru kjaraviðræður sem þyrfti að líta á allt sem eina heild,“ segir Halldór og bætir við að hann hafi reifað þau sjónarmið í löngu máli á fundinum í dag.
Næsti fundur í kjaraviðræðunum verður á morgun og mæta þá Samtök atvinnulífsins, VR, SGS og LÍV til fundar hjá ríkissáttasemjara.