Háskóli Íslands gerði skaðabótakröfu á hendur Veitum ohf., VÍS og fleiri aðilum upp á tæplega 224 milljónir króna vegna vatnstjóns sem varð í byggingum skólans í janúar í fyrra eftir að stofnlögn vatns fór í sundur. Kröfunni var hafnað.
Þetta kemur fram í árshlutareikningi Orkuveitu Reykjavíkur.
Fram kemur að Háskóli Íslands fékk dómkvadda matsmenn til að meta umfang tjónsins og var kostnaður vegna endurbóta metinn á 123,6 milljónir króna.
Undirmatsmenn í nýju undirmati um útlagðan kostnað voru dómkvaddir þann 25. maí síðastliðinn en matsgerð þeirra liggur ekki fyrir. Yfirmatsmenn voru dómkvaddir 8. júní síðastliðinn en yfirmatsgerð þeirra liggur heldur ekki fyrir. Matsmenn í undir- og yfirmati hafa upplýst að matsgerðir verði mögulega tilbúnar fyrir lok árs.
„OR - vatns- og fráveita er með frjálsa ábyrgðatryggingu sem tekur til skaðabótaábyrgðar sem fellur á félagið. Skilmálar þeirrar tryggingar mæla fyrir um 5 milljóna króna sjálfsábyrgð og 50% af fjárhæð tjóns eftir það. Þak tryggingarinnar er 300 milljónir króna,“ segir í árshlutareikningnum.