Nokkuð kröftugur skjálfti varð í öflugustu eldstöð landsins, Bárðarbungu, upp úr klukkan eitt eftir miðnætti í nótt. Fyrstu yfirförnu mælingar Veðurstofunnar benda til þess að skjálftinn hafi verið 3,8 að stærð.
Skjálftinn er sá kröftugasti sem mælst hefur á svæðinu í tæpan mánuð, en þann 31. október mældist skjálfti af stærðinni 4,2 við Bárðarbungu.
Hvorugur er þó nálægt þeim skjálfta að styrkleika sem reið yfir 24. júlí. Sá mældist 4,9 að stærð og varð í norðanverðri öskju megineldstöðvarinnar, sem hulin er jökli.
Ekki eru merki um að yfir vofi gos. Skjálftar af stærð 4 og stærri eru ekki óalgengir í Bárðarbungu. Alls hafa fleiri en 50 mælst frá því að eldgosi í Holuhrauni lauk í febrúar 2015.
„Þetta er sum sé aðalmerkið um að það sé að aukast þrýstingur undir Bárðarbungu,“ sagði Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, í samtali við mbl.is um skjálftana í júlí.
„Þrýstingurinn féll gríðarlega mikið í Holuhraunsgosinu. Það fór mikið magn af kviku norður í Holuhraun undan Bárðarbungu, en askjan seig um 65 metra í Bárðarbungu. Fljótlega eftir að gosið hætti þá fór kvika að safnast fyrir aftur undir Bárðarbungu og þar hefur verið landris alveg síðan,“ sagði Páll.
Óvíst væri þó hvenær það leiddi til goss, og hvort það gjósi yfir höfuð.
„Þetta er þó merki um það að virknin i Bárðarbungu er í gangi enn þá, og því full ástæða til að hafa auga með þessari öflugustu eldstöð landsins.“