Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heldur á morgun til Japans þar sem hann tekur þátt í jafnréttisþinginu World Assembly for Women (WAW!) 2022 í boði japanskra stjórnvalda. Undanfarin ár hafa Japanir litið til Íslands sem fyrirmyndar í leit að leiðum til umbóta á sviði jafnréttismála. Ísland hefur verið í efsta sæti jafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins í rúman áratug en Japan er í 116. sæti.
Jafnréttisþingið World Assembly for Women (WAW!) hefst laugardaginn 3. desember. Í þetta sinn er sérstök áhersla lögð á ávinning af því að jafna stöðu kynjanna í atvinnulífinu, með hliðsjón af nýrri efnahagsstefnu japanskra stjórnvalda. Forsætisráðherra Japans setur þingið en aðalræðumenn þess verða forseti Íslands og Sima Sami Babous, framkvæmdastýra UN Women. Forseti mun svo eiga tvíhliða fund með Kishida forsætisráðherra og taka þátt í pallborðsumræðum þar sem sjónum verður beint að mikilvægi þess að virkja karlmenn til vitundar og þátttöku í jafnréttisstarfi og að samhæfingu atvinnu- og fjölskyldulífs, segir í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.
Nóg verður um að vera hjá forsetanum þar sem eftir hádegi þann dag heldur hann til sveitarfélagsins Tama í vesturhluta Tókýó sem var gestgjafi íslenska hópsins á Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra í Japan 2021. Forseti mun funda með borgarstjórn Tama og þakka veittan stuðning við íslensku Ólympíuhópana. Síðdegis heldur hann svo til fundar við Aya Komaki, forstjóra japanska fyrirtækisins Sanrio Entertainment sem á vinsæl japönsk vörumerki á borð við Hello Kitty. Komaki hefur vakið mikla athygli í Japan fyrir framsækna og fjölskylduvæna jafnréttisstefnu.
Sunnudaginn 4. desember bjóða japönsk stjórnvöld heiðursgestum WAW! þingsins til héraðsins Fukushima. Gríðarmikið hreinsunar- og uppbyggingarstarf hefur farið fram þar eftir kjarnorkuslysið í Daiichi kjarnorkuverinu í mars 2011 en þar eru nú einnig stundaðar rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum, aukinni jarðvarmanýtingu og framleiðslu vetnis.
Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að ferðinni muni ljúka mánudaginn 5. desember þegar forseti heldur aftur til Tókýó. Þar efnir sendiráð Íslands til móttöku til heiðurs forseta með aðilum úr viðskiptalífinu í Japan. Dagskrá forseta endar svo síðdegis á mánudegi á málþingi sem sendiráð Norðurlanda í Tókýó efna til í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina undir yfirskriftinni New form of capitalism in Japan and the Nordic Vision: Labor Participation, gender equality and work-life balance. Forseti heldur aðalræðu auk ráðherra jafnréttismála í Japan, Masanobu Ogura. Rætt verður um hvernig norrænt velferðarkerfi getur orðið fyrirmynd við innleiðingu nýrrar efnahagsstefnu japanskra stjórnvalda.