Maður veittist að fyrrverandi konu sinni með öxi fyrir framan Dalskóla í Úlfarsárdal síðdegis í dag. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Konan var flutt á spítala en er ekki talin í lífshættu, að sögn Margeirs, en aðspurður kveðst hann ekki vilja fara nánar út í líðan konunnar.
Maðurinn er í haldi lögreglu og hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Á miðlinum vísi er því haldið fram að konan hafi verið að sækja börnin sín í skólann þegar árásin átti sér stað og að mörg vitni hafi orðið að árásinni, þar á meðal börn.
Í tölvupósti sem Helena Katrín Hjaltadóttir, skólastjóri Dalskóla, sendi til foreldra í dag sagði hún að atvikið snerti tvö börn í skólanum og hvatti hún foreldra til að sýna nærgætni í umræðu um málið.
Þá áréttaði hún að ekki hefði verið um skotárás að ræða, en svo virðist sem sögusagnir hafi sprottið upp þess efnis.
Segir Helena í bréfinu að boðið verði upp á samtal við skólasálfræðing og félagsráðgjafa í skólanum á morgun fyrir þá sem vilji nýta sér það.
„Starfsfólk Úlfabyggðar brást hárrétt við í flóknum aðstæðum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Við munum, eins og ávallt, gera allt til að tryggja öryggi nemenda okkar.“