Ungir og efnilegir framtíðargeimfarar luku í síðustu viku geimfaranámskeiði á Húsavík. Örlygur Hnefill Örlygsson, safnstjóri Könnunarsafnsins á Húsavík, sem stendur fyrir verkefninu árlega, tók á móti geimfaraefnunum sem komu víða að úr heiminum. Hann segir, í samtali við K100.is, að sum þeirra hafi lagt gríðarlega langt ferðalag á sig til að taka þátt í verkefninu en ein stúlka, frá Indlandi, þurfti að fara í 14 flugferðir.
Met var í umsóknum fyrir námskeiðið í ár en geimfaraefnin fimm, sem eru á aldrinum 13-20 ára og komust að, þykja afar efnileg og hafa gríðarlegan metnað fyrir geimvísindum. Í verkefninu fara ungmenni á slóðir Apollo-geimfaranna sem ferðuðust hingað til lands árið 1965 til að æfa sig fyrir fyrir tunglferðina árið 1967.
Örlygur ræddi bæði við K100.is og við Kristínu Sif og Ásgeir Pál í Ísland vaknar á K100 um verkefnið sem hann byrjaði með árið 2018.
„Krakkar sem hafa áhuga á að fara í geimferðir í framtíðinni. Þau voru að fá æfingaprógramm eins og Apollo-geimfararnir,“ sagði Örlygur í Ísland vaknar.
„Þau senda ritgerðir um sig, um hvað þau eru að gera og hvað þau eru búin að vera að gera. Það var til dæmis einn 13 ára strákur núna sem hefur verið í alls konar tilraunum síðan hann var átta ára gamall og var að lýsa því í miklum smáatriðum. Þetta eru ótrúlega flottir krakkar, alveg eldklárir,“ sagði Örlygur við K100.is.
„Við erum að gera þetta einu sinni á ári, að bjóða svona hóp. Við förum á þessar slóðir sem geimfararnir voru að læra á. Við erum fyrst og fremst að horfa á jarðfræðina. Við höfum aðeins verið að skoða líffræðilega þætti. Það er að segja greiningar á sýnum í jarðvegi,“ sagði Örlygur og vísaði í væntanlegar geimferðir framtíðarinnar til Mars þar sem slíkar rannsóknir verða líklega mikilvægar.
„Þau eru að læra að taka sýni, um þessa merkilegu jarðfræði Íslands. Ísland var valið, á sínum tíma til að þjálfa geimfaranna sem voru að fara til tunglsins út af því að það er svo fjölbreytt jarðfræði sem er á landinu. Þannig að krakkarnir voru að fá að prófa þetta allt saman,“ sagði Örlygur í Ísland vaknar en krakkarnir fengu einnig að hitta fólk sem hafði kynni af fyrrnefndum tunglförum og æfingum þeirra. Meðal annars Jónas Helgason, jarðfræðikennara hópsins frá Grænavatni í Mývatnssveit, sem var barn að aldri þegar Apollo geimfararnir voru að æfa á svæðinu.
„Núna stefnir Nasa aftur á tunglið og vonandi áfram á Mars. Og þá þarf að skoða aftur yfirborð annarra staða. Þá kemur Ísland sterkt inn,“ sagði hann en hann rifjaði upp í þættinum þegar hann varð vitni að því þegar gamall vísindamaður tengdi tölvuna sína við tölvu á Mars í gamalli rútu tunglfaranna við Húsavík fyrir nokkrum árum.
„Það er ýmislegt spennandi að gerast í geimnum. Ísland hefur rosalega mörg tækifæri út af staðsetningu okkar svona norðarlega í sambandi við norðurljósin og rannsóknir á himingeiminum þar og náttúrulega út af jarðfræðinni okkar,“ sagði Örlygur.
Örlygur segir ungmennin vera afar efnileg en sum þeirra hafa varið mörgum árum í alls konar nám til að auka líkurnar á að þau komist að hjá NASA.
„Svo ég vona að við sjáum eitthvað af þessum krökkum gera stóra hluti,“ sagði hann í viðtalinu á K100.
Í samtali við K100.is sagðist Örlygur vonast til að geta stækkað prógrammið og hafa það jafnvel oftar en einu sinni á ári til að leyfa fleirum að komast að.
„Auðvitað myndum við vilja taka alla inn en þetta er náttúrulega bara mikið til sjálfsfjármagnað hjá okkur,“ sagði hann . „Krakkarnir borga ekkert fyrir að koma í prógrammið, þau fá þetta frítt. Þetta er bara eitthvað sem safnið gerir á hverju ári,“ sagði hann.
Hlustaðu á allt útvarpsviðtalið við Örlyg í Ísland vaknar í spilaranum hér að neðan.
Fjögur ungmennanna voru með fyrirlestur á Geospace Iceland sem sjá má hér að neðan.