Kvikmynd Hilmars Oddssonar, Á ferð með mömmu, hlaut Grand Prix, aðalverðlaun PÖFF, Black Nights-kvikmyndahátíðarinnar í Tallinn í Eistlandi, um helgina. Með aðalhlutverk í myndinni fara Þröstur Leó Gunnarsson og Kristbjörg Kjeld en auk þeirra eru veigamikil hlutverk í höndum Heru Hilmarsdóttur og Tómasar Lemarquis. Hilmar Oddsson leikstýrir myndinni og er jafnframt handritshöfundur en framleiðandi er Hlín Jóhannesdóttir.
„Þetta er auðvitað bara frábært,“ segir Hilmar í samtali við mbl.is, „þessi hátíð er ein af fimmtán A-hátíðum í heiminum og að sigra á slíkri hátíð er meira en að segja það. Í mínu tilfelli, og kannski flestra er þetta ný reynsla og bæði persónulegur sigur og sigur fyrir okkur öll sem að þessu verki komum,“ heldur hann áfram.
Heimsfaraldurinn hafi sett strik í reikninginn eins og svo víða. Fjöldi íslenskra kvikmynda hafi beðið og aðstandendum Á ferð með mömmu því orðið ljóst að ekki næðist að frumsýna myndina á Íslandi á þessu ári svo vel færi. „Það eru margir um hituna og við vildum ekkert vera að þvælast fyrir öðrum eða láta aðra þvælast fyrir okkur,“ segir leikstjórinn.
Áhersla hafi því verið lögð á að frumsýna myndina erlendis og Eistland verið auðvelt val þar sem Á ferð með mömmu er eistnesk samframleiðsla. Klipping, hljóð og hönnun hafi til dæmis verið í höndum Eista auk þess sem eistneskt tónskáld, Tõnu Kõrvits, hafi samið tónlistina. „Hljóðrásin er svolítið eistnesk,“ segir Hilmar en myndin hlaut einnig verðlaun fyrir bestu tónlistina.
Aðstandendur PÖFF hafi frá fyrstu byrjun verið mjög jákvæðir og ólmir í að fá myndina sem alls ekki sé sjálfgefið. „Maður veit aldrei neitt, maður er að gera eitthvert verk og maður er aldrei öruggur með neitt, í listum getur allt mistekist,“ segir Hilmar með vissu þess sem marga fjöruna hefur sopið um dagana.
„Það er auðvitað oft sem fólk segir eitthvað huggulegt við mann og svo er ekkert á bak við það svo það var virkilega gaman að sjá að þarna fylgdi hugur máli,“ heldur leikstjórinn áfram og segir svo sjálfstæða dómnefnd að auki hafa tekið myndinni með kostum og kynjum.
„Við vorum að keppa þarna við 23 myndir svo maður var ekkert að drepast úr bjartsýni, vissi alveg að þetta hefði getað farið á alla vegu og þeim mun ánægðari er ég bara. Það má líka geta þess að fyrsti dómurinn um myndina kom daginn eftir og hann var fimm stjörnur,“ segir Hilmar Oddsson, leikstjóri og handritshöfundur Á ferð með mömmu.
Myndin verður frumsýnd á Íslandi 17. febrúar og segir frá miklum umskiptum sem verða í lífi manns eftir að móðir hans, og mesti áhrifavaldur, fellur frá. Með uppáklætt líkið í aftursætinu og hundinn Brésnef við hlið sér tekst hann á hendur ferð þvert yfir landið til að heiðra hennar síðustu ósk. En mamma hefur ekki sagt sitt síðasta, segir í kynningarefni með myndinni en með henni snýr Hilmar aftur í leikstjórastólinn eftir tólf ára hlé frá þeirri iðju en hann hefur verið rektor Kvikmyndaskóla Íslands síðustu ár.