60 ára og eldri hvattir til bólusetninga

Fólk eldra en 60 ára og fólk með undirliggjandi sjúkdóma …
Fólk eldra en 60 ára og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er hvatt til að þiggja örvunarskammt af bóluefni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fólk 60 ára og eldra og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er hvatt til að þiggja örvunarskammt af bóluefni við Covid-19 ef fjórir mánuðir eða meira eru liðnir frá síðustu bólusetningu. Hægt er að fá bólusetningu á næstu heilsugæslustöð án endurgjalds.“

Þetta segir í tilkynningu frá sóttvarnalækni og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem enn fremur er tæpt á því að örvunarbólusetning veiti vernd gegn alvarlegum afleiðingum Covid-19.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér um bólusetningar á höfuðborgarsvæðinu en heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins munu annast bólusetningar fyrir sína skjólstæðinga.

Tekið er fram í tilkynningu sóttvarnalæknis og heilsugæslunnar að bóka þurfi tíma í gegnum mínar síður á Heilsuveru eða símleiðis hjá hverri heilsugæslustöð. Enn fremur sé hægt að bóka tíma hjá Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í síma 513-1700 og í gegnum netspjall Heilsuveru.

Misjafnt sé milli stöðva hvaða tímasetningar eru í boði fyrir bólusetningar en um það má forvitnast á vefsíðu hverrar stöðvar eða við tímabókun.

Á vefnum covid.is má svo leita upplýsinga um aukaverkanir vegna Covid-19-bólusetningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka