Enn er leitað að Friðfinni Frey Kristinssyni sem hvarf 10. nóvember. Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir í samtali við mbl.is að allir möguleikar séu skoðaðir en ekki er talið líklegt að hvarfið tengist undirheimunum.
Í viðtali við Vísi í morgun sagði séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, faðir Friðfinns, að hann óttist að sonur hans hafi legið undir hótunum frá tveimur mönnum í undirheimunum sem lögregla þekki vel til.
„Við erum ekki að fara í þá áttina,“ segir Guðmundur og bætir við að allir möguleikar sé skoðaðir, „en það er ekkert sem bendir til þess“.
Þá segir hann að leitin sé ekki komin á svið miðlægrar rannsóknardeildar sem sinnir rannsóknum flókinna, viðamikilla sakamála.
Guðmundur segir að lokum að leit að Friðfinni verði haldið áfram en hann sást síðast er hann fór frá Kugguvogi fimmtudaginn 10. nóvember.
Friðfinnur er 182 sentímetrar að hæð, grannvaxinn, dökkhærður og með alskegg. Hann var klæddur í gráa peysu, gráar joggingbuxur og bláa íþróttaskó.