Hvarfið á Friðfinni ekki talið tengjast undirheimunum

Friðfinnur Freyr Kristinsson.
Friðfinnur Freyr Kristinsson. Ljósmynd/Lögreglan

Enn er leitað að Friðfinni Frey Kristinssyni sem hvarf 10. nóvember. Guðmund­ur Páll Jóns­son lög­reglu­full­trúi segir í samtali við mbl.is að allir möguleikar séu skoðaðir en ekki er talið líklegt að hvarfið tengist undirheimunum.

Í viðtali við Vísi í morgun sagði séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, faðir Friðfinns, að hann óttist að sonur hans hafi legið undir hótunum frá tveimur mönnum í undirheimunum sem lögregla þekki vel til. 

„Við erum ekki að fara í þá áttina,“ segir Guðmundur og bætir við að allir möguleikar sé skoðaðir, „en það er ekkert sem bendir til þess“. 

Þá segir hann að leitin sé ekki komin á svið miðlægrar rannsóknardeildar sem sinnir rannsóknum flókinna, viðamikilla sakamála. 

Guðmundur segir að lokum að leit að Friðfinni verði haldið áfram en hann sást síðast er hann fór frá Kuggu­vogi fimmtu­dag­inn 10. nóv­em­ber.

Friðfinn­ur er 182 sentí­metrar að hæð, grann­vax­inn, dökk­hærður og með alskegg. Hann var klædd­ur í gráa peysu, grá­ar jogg­ing­bux­ur og bláa íþrótta­skó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert