Mörgum létt í Reykjanesbæ

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Kísilverið mætti mikilli mótspyrnu meðal …
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Kísilverið mætti mikilli mótspyrnu meðal íbúa á sínum tíma. Ljósmynd/Aðsend

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar segist feginn því að niðurstaða sé loks komin í mál PCC og kísilversins í Helguvík, en greint var frá því í dag að Arion banki hefði slitið formlegum viðræðum um kaup PCC á verksmiðjunni.

„Við erum fyrst og fremst fegin að það sé komin niðurstaða í málið. Að það sé ekki frekari óvissa eins og er búið að vera núna um nokkuð langt skeið. Þetta er niðurstaða sem við getum alveg unað,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

„Nú höldum við áfram að byggja upp í Helguvík einhverja aðra starfsemi.“

Spurður hvort það liggi fyrir hvað tekur við á svæðinu, svarar Kjartan:

„Nei, það liggur í rauninni ekki fyrir. En ég sá í viðtali við Benedikt Gíslason, bankastjóra Arion banka, að það væri enn óvíst hvað yrði um húsið. Hvort það yrði rifið eða selt eða hvað. Við hljótum að fá fregnir af því, ef og þegar eitthvað gerist í þeim málum.“

Kísilverið í Helguvík hefur ekki verið starfrækt frá árinu 2017.
Kísilverið í Helguvík hefur ekki verið starfrækt frá árinu 2017. mbl.is/Árni Sæberg

Algjörlega misheppnað

Kísilverið mætti mikilli mótspyrnu meðal íbúa á sínum tíma og sjálfur var Kjartan Már mótfallinn endurræsingu kísilverksmiðjunnar.

„Það fór ekki framhjá neinum. Þetta var náttúrlega algjörlega misheppnuð gangsetning á kísilverinu á sínum tíma, sem olli mörgum bæjarbúum miklum óþægindum. Það mótaði afstöðu bæjaryfirvalda til verkefnisins til framtíðar.“

Þannig það má segja að mörgum sé létt að það verði ekki annað kísilver gangsett?

„Já, ég held ég geti fullyrt það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka