Rekstrarniðurstaða A-hluta neikvæð um 11 milljarða

Rekstrarniðurstaða A-hluta, sem er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður …
Rekstrarniðurstaða A-hluta, sem er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum var neikvæð um 11.084 milljónir króna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Níu mánaða árshlutareikningur Reykjavíkurborgar var afgreiddur í borgarráði í dag. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 6.777 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 11.084 milljónir.

Áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu A- og B-hluta um 6.019 milljónir. Þetta má einkum rekja til matsbreytinga fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum sem námu 4,5 milljörðum umfram áætlun. Þá var rekstrarniðurstaða A-hluta, sem er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum, neikvæð um 11.084 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 1.632 m.kr.

Verðbólga haft áhrif á fjármagnsgjöld

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að fjármagnsgjöld hafi verið 12,1 milljarði hærri en áætlað hafi verið. Þar spili inn í vísitala neysluverðs sem hafi hækkað mun meira en áætlað var auk þess sem verðbólga var 7,8% á tímabilinu sem hafði veruleg áhrif á fjármagnsgjöld.

Í tilkynningu frá borginni segir að margt hafi haft áhrif á uppgjör fyrri árshelmings.

„Bylgja nýs afbrigðis af COVID-19 í upphafi árs fól í sér tímabundið álag á rekstur, einkum á sviðum skóla og velferðar. Stríð í Úkraínu, auk kórónuveirunnar, hefur leitt til skorts á hrávöru og hægt á framleiðslulínum með miklum áhrifum á heimsmarkað og aukinni verðbólgu í okkar helstu viðskiptalöndum. Þá hefur Seðlabankinn, vegna hækkana á húsnæðismarkaði, hárrar verðbólgu og þenslu innanlands, verið í hækkunarferli stýrivaxta og allt hefur þetta áhrif.“

Brugðist við með hagræðingaraðgerðum

Borgin hefur brugðist við erfiðri stöðu með samdrætti í fjárfestingum auk hagræðingaraðgerða í nýrri fjárhagsáætlun fyrir 2023 til 2027.

„Reykjavíkurborg hefur brugðist við erfiðri stöðu með samdrætti í fjárfestingum en gert er ráð fyrir að þær verði 25 milljarðar króna í stað fyrirhugaðra 32,4 milljarða, í árslok. Ný fjárhagsáætlun fyrir árið 2023- 2027 gerir jafnframt ráð fyrir samdrætti í fjárfestingum miðað við fyrri áætlanir ásamt hagræðingaraðgerðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert