Samfylkingin yrði næststærsti flokkurinn, með 21,1 prósenta fylgi og 15 menn kjörna, yrði gengið til kosninga í dag, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Ríkisútvarpið greinir frá.
Um er að ræða mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í tíu ár.
Enn er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 24,1 prósent og 16 menn kjörna, svipað því sem flokkurinn hlaut í síðustu alþingiskosningum.
Framsóknarflokkurinn tapar fylgi og mælist jafnstór Pírötum, sem hafa bætt við sig frá síðustu kosningum. Fengju báðir flokkar átta menn kjörna.
Framsókn er með 13 menn á yfirstandandi þingi og Píratar sex.
Vinstri græn halda áfram að missa fylgi og eru nú í 7,5 prósentum og fengju samkvæmt því fimm þingmenn, samanborið við átta manna þingflokk eins og staðan er nú.
Eru þau nær jöfn Viðreisn sem mælist með 7,4 prósent og héldu sínum fimm mönnum.
Fylgi Miðflokksins og Sósíalistaflokksins hefur lítið breyst frá síðustu kosningum en þó hefur fylgi sósíalista aukist nóg til að mælast með þrjá menn inni.
Þá hefur Flokkur fólksins tapað um helmingi fylgis síns frá síðustu kosningum og næði ekki inn manni. Á þingi sitja sex þingmenn fyrir flokkinn.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar milli kannana og stendur í 46 prósentum. Samanlagður stuðningur við ríkisstjórnarflokkana þrjá mælist 44 prósent og samanlagður þingmannafjöldi væri 29 og næðu þau því ekki meirihluta á þingi.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem samanstendur af VG, Sjálfstæðisflokki og Framsókn, hefur aftur á móti 38 þingmenn á yfirstandandi þingi og traustan meirihluta.