Telja fullreynt að rekin verði kísilverksmiðja í Helguvík

Kísilverið í Helguvík hefur ekki verið starfrækt frá árinu 2017.
Kísilverið í Helguvík hefur ekki verið starfrækt frá árinu 2017. mbl.is/Árni Sæberg

Arion banki og PCC hafa slitið formlegum viðræðum um möguleg kaup PCC á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Samhliða hefur Arion banki sagt upp raforkusamningi við Landsvirkjun þar sem framleiðsla kísils var forsenda samningsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

Haft er eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, að talið sé fullreynt að rekin verði kísilverksmiðja í Helguvík og við taki því nýr kafli sem miði að því að flytja verksmiðjuna eða færa henni nýtt hlutverk.

Leituðu að hæfum kaupendum 

Arion banki eignaðist kísilverksmiðjuna árið 2018 í kjölfar gjaldþrots fyrri eiganda, United Sílicon hf. Síðan þá hefur dótturfélag bankans, Stakksberg ehf., unnið endurbótaáætlun fyrir verksmiðjuna og leitað að hæfum kaupendum sem gætu rekið verksmiðjuna með ábyrgum hætti, að segir í tilkynningunni.

Í upphafi þessa árs gekk bankinn til einkaviðræðna við PCC, sem hefur starfrækt kísilverksmiðju á Bakka, og voru fulltrúar PCC og Arion banka sammála um að forsenda þess að farið yrði af stað aftur með kísilframleiðslu í Helguvík væri að slíkt yrði gert í góðri sátt við yfirvöld og íbúa Reykjanesbæjar.

Viðræður þegar í gangi við nokkra aðila 

PCC hefur hins vegar undanfarið kynnt metnaðarfull áform sín fyrir ýmsum hagaðilum og er niðurstaða þeirrar vinnu að félagið telur ekki grundvöll fyrir áframhaldandi viðræðum um kaup PCC á kísilverksmiðjunni.

„Í kjölfar þessarar niðurstöðu mun Arion banki horfa til sölu á þeim innviðum sem eru til staðar í Helguvík, annað hvort til flutnings eða með það að markmiði að koma þar upp annars konar starfsemi en kísilframleiðslu. Viðræður eru þegar í gangi við nokkra aðila, innlenda og erlenda, í þessu sambandi. Ákvörðunin hefur ekki áhrif á bókfært verðmat eignarinnar, en verðmat verður endurmetið með hliðsjón af þróun þessara viðræðna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka