Tryggir aðgang að einum helsta endó-sérfræðingi í heiminum

Lilja Guðmundsdóttir, formaður Endósamtakanna.
Lilja Guðmundsdóttir, formaður Endósamtakanna. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum í skýjunum með þessa nýju samninga. Þetta er það sem við höfum verið að berjast fyrir síðustu árin,“ segir Lilja Guðmundsdóttir, formaður Endósamtakanna, um samninga Sjúkratrygginga við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu.

„Við áttum fund með heilbrigðisráðherra og hans aðstoðarmönnum í október. Við nutum liðsinnis lögfræðinga frá Réttu lögmannsstofu,“ segir Lilja og ítrekar að um stóran áfanga sé að ræða í baráttu samtakanna.

„Þetta er ótrúlega mikil bót í allri þjónustu fyrir fólk með endómetríósu.“

Flöskuháls að komast á biðlista

Lilja segir að þrátt fyrir stofnun endómetríósuteymis á Landspítalanum árið 2017 hafi ekki verið unnt að sinna öllum þeim sem eru með endómetríósu.

„Það hefur sinnt góðu starfi en ekki getað annað eftirspurn. Biðlistarnir eru orðnir mjög langir og það er ekki bara Covid-19 sem kemur til.“

Endómetríósu er ekki hægt að greina með óyggjandi hætti nema með aðgerð. Biðlistar eru langir í viðtal hjá lækni, í aðgerð og alla aðra þjónustu hjá teyminu.

„Það hefur einnig verið flöskuháls að komast á biðlista. Margar hafa fengið skilaboð um að það borgi sig ekki þar sem þeir séu einfaldlega fullir. Heimilislæknar og kvensjúkdómalæknar hafa verið tregir að setja fólk á biðlistana. Biðin hefur þannig verið langt umfram það sem getur talist eðlilegt.“

Dæmi um að öryrkjar hafi greitt sjálfir

Lilja segir að margar konur hafi sjálfar greitt fyrir aðgerð á einkastofu, sem nú hefur verið samið við. Síminn hjá samtökunum hafi ekki stoppað í dag vegna fyrirspurna frá konum sem hafa þegar greitt eigin aðgerðir og vilja vita hvort að niðurgreiðslan verði afturvirk.
„Auk þess eru til dæmi um að konur sem hafa farið í aðgerð á Landspítalanum hafi ekki náð bata, en hafi síðan farið í aðgerð á Klíníkinni og liðið betur,“ segir Lilja.

Ekki er gert ráð fyrir að samningarnir verði afturvirkir. Um 130 til 140 hafa farið í aðgerð hjá sama sérfræðingi og nú hefur verið samið við, síðan hann fór að taka að sér aðgerðir hér á landi. Lilja kveðst meðal annars hafa fengið símtöl í dag frá fólki sem er á örorku í dag sem greitt hefur aðgerðir úr eigin vasa. „Það er auðvitað mjög blóðugt.“

„Svo kemur skyndilega niðurgreiðslan, en hún verður auðvitað einhvern tímann að taka gildi og maður getur verið heppinn eða óheppinn í því sambandi.“

Lilja segir að samningarnir hafi þau áhrif að biðlistar styttist, að íslenskar konur muni hafa aðgang að aðgerðum hjá lækni í fremstu röð, „einum helsta sérfræðingi í endómetríósu í heiminum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka