Tilnefningar til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna, Blóðdropans, og Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022, í þremur flokkum, voru kynntar rétt í þessu á Kjarvalsstöðum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir verðlaunin á nýju ári. Formenn dómnefndanna fjögurra koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Gísla Sigurðssyni, og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verk, sem Félag íslenskra bókaútgefenda kostar.
Félag íslenskra bókaútgefenda gerði fyrr á þessu ári samkomulag við Íslenska glæpafélagið um að taka við framkvæmd Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans ásamt því að kosta verðlaunin með sama hætti og Íslensku bókmenntaverðlaunin.
Tilnefningar til Blóðdropans
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna, Blóðdropans:
- Eva Björg Ægisdóttir fyrir Stráka sem meiða sem Veröld gefur út. „Áhugaverð sakamálasaga sem tekur á ljótum samfélagslegum vandamálum. Hefndin ræður ríkjum þegar draugur fortíðar bankar upp á. Höfundur skapar raunsæja mynd þar sem auðvelt er að tengjast persónum og atburðum.“
- Lilja Sigurðardóttir fyrir Drepsvart hraun sem JPV útgáfa gefur út. „Æsispennandi og skemmtileg saga sem heldur lesandanum í gíslingu. Höfundur dansar fína línu á milli raunveruleikans, vísindaskáldskapar og spennusögu.“
- Ragnar Jónasson og Katrín Jakobsdóttir fyrir Reykjavík sem Veröld gefur út. „Spennandi söguleg glæpasaga með óvæntum útspilum. Flæði bókarinnar er gott og samstarf höfundanna gengur mjög vel upp.“
- Skúli Sigurðsson fyrir Stóra bróður sem Drápa gefur út. „Ný rödd hefur kvatt sér hljóðs í heimi íslenskra glæpasagna og það af fullum krafti. Margslungin bók þar sem fjölmargar sögur fléttast saman frá ólíkum sjónarhornum. Bókin er raunsæ og tekur á málefnum sem hafa verið mikið í umræðunni.“
- Stefán Máni fyrir Hungur sem Sögur útgáfa gefur út. „Hrottaleg glæpasaga sem fær lesandann til að staldra við og hugleiða hvort hann eigi að lesa áfram. Breyskleikar og áskoranir sögupersóna tvinnast saman við spennandi söguþráðinn.“
Dómnefnd skipuðu Sigríður Kristjánsdóttir, formaður dómnefndar, Áslaug Óttarsdóttir og Einar Eysteinsson.
Tilnefningar í flokki barna- og ungmennabóka
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:
- Arndís Þórarinsdóttir fyrir Kollhnís sem Mál og menning gefur út. „Áhugaverð, þörf og marglaga saga. Aðalpersónan tekst á við flóknar áskoranir og lesandinn er vakinn til umhugsunar um mikilvæg málefni á borð við einhverfu, einelti og ósætti innan fjölskyldu. Textinn flæðir mjög vel, húmorinn er sjaldnast langt undan og rödd sögumannsins skýr og ákveðin þótt hann lesi ekki alltaf rétt í aðstæður.“
- Elísabet Thoroddsen fyrir Allt er svart í myrkrinu sem Bókabeitan gefur út. „Vel skrifuð frásögn sem fjallar um hinsegin ástir, dulræn öfl, andaglas og drauga. Atburðarásin er spennandi og söguþráðurinn úthugsaður. Persónur þurfa að takast á við flókin verkefni en í því skyni er mikilvægt að þau öðlist skilning á fortíðinni, vinni saman og treysti á sjálf sig. Sagan er glæsileg frumraun höfundar.“
- Eiríkur Örn Norðdahl og Elías Rúni, myndhöfundur, fyrir Frankensleiki sem Mál og menning gefur út. „Áhugaverð og nýstárleg saga sem sýnir jólasveinana í nýju og óvæntu ljósi. Persónusköpunin er forvitnileg en við sögu koma uppátækjasamir krakkar, kassalaga foreldrar og niðurbútaðir jólasveinar. Í verkinu fléttast listavel saman kímni, fantasía og hrollvekja þannig að úr verður frásögn sem er allt í senn fyndin, óhugnanleg og grípandi.“
- Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir fyrir Héragerði sem Salka gefur út. „Kostuleg saga þar sem hversdagurinn er gerður að ævintýri. Með gamansemi og næmni fyrir mannlegum tilfinningum er varpað ljósi á flókin fjölskyldubönd, vandræðalegar uppákomur og ríkulega sköpunarhæfni barna. Vandaðar myndlýsingar styðja vel við frásögnina og saman mynda þau listræna heild sem höfðar til lesenda á öllum aldri.“
- Sigrún Eldjárn fyrir Ófreskjuna í mýrinni sem Mál og menning gefur út. „Stórskemmtileg frásögn sem markast af spennu, dulúð og kátínu. Unnið er á frumlegan hátt með íslenska þjóðtrú. Textinn vísar jafnt í fortíð og nútíð, heimsbókmenntir og dægurmenningu þannig að úr verður snjöll og velheppnuð blanda. Ríkulegar og fallegar myndlýsingar auðga söguna og sveipa hana töfraljóma.“
Dómnefnd skipuðu Guðrún Steinþórsdóttir, formaður dómnefndar, Gunnar Björn Melsted og Helga Ósk Hreinsdóttir.
Tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
- Árni Snævarr fyrir Ísland Babýlon: Dýrafjarðarmálið og sjálfstæðisbaráttan í nýju ljósi sem Mál og menning gefur út. „Skemmtileg frásögn um lítt þekktan kafla í sögunni sem sýnir sjálfstæðisbaráttuna frá nýju sjónarhorni. Höfundur leitast við að setja Ísland í samhengi við byltingasögu Evrópu. Þetta er vandlega unnið verk sem fær lesendur til að endurmeta stöðu Íslands í umheiminum.“
- Kristín Svava Tómasdóttir fyrir Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 sem Sögufélag gefur út. „Vandað verk sem veitir innsýn í þróun heilbrigðis- og velferðarmála á Íslandi. Sagan er vel skrifuð, út frá sjónarhorni húss sem gegndi ólíkum en mikilvægum hlutverkum í þróun nútímasamfélags. Margar eftirminnilegar persónur úr öllum þjóðfélagshópum koma við sögu og ríkulegt myndefni styður vel við frásögnina. Falleg og fróðleg bók.“
- Ragnar Stefánsson fyrir Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta sem Skrudda gefur út. „Stórfróðlegt yfirlitsrit um jarðskjálfta sem lærðir og leikir munu hafa gagn og gaman af. Hér birtist afrakstur áratuga rannsókna eftir einn af okkar helstu sérfræðingum um efnið og er hann bjartsýnn á að unnt verði að segja fyrir um jarðskjálfta. Með vönduðum texta og lýsandi skýringarmyndum auðveldar höfundur almenningi skilning á jarðskjálftum.“
- Stefán Ólafsson fyrir Baráttuna um bjargirnar: Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags sem Háskólaútgáfan gefur út. „Í bókinni greinir höfundur efnahagslíf, völd og stjórnmál á Íslandi með vandlega rökstuddum málflutningi. Greiningin byggist á umfangsmiklum gögnum sem sett eru fram í skýrum og lýsandi myndritum þar sem þróun á íslensku samfélagi er sett í alþjóðlegt samhengi. Slíkt rit er nauðsynlegt fyrir stjórnmálaumræðu á Íslandi.“
- Þorsteinn Gunnarsson fyrir Nesstofu við Seltjörn: Saga hússins, endurreisn og byggingarlist sem Þjóðminjasafn Íslands gefur út. „Hús okkar fyrsta landlæknis, sem byggt var á árunum 1761-1767 á sér merkilega sögu. Ritið á erindi til allra sem er umhugað um húsverndun og varðveislu menningararfsins. Líkt og við byggingu og endurgerð Nesstofu hefur höfundur verksins nostrað við hvert smáatriði. Með vandaðri framsetningu mynda lesendur sterk tengsl við húsið, íbúa þess, starfsemi og sögu.“
Dómnefnd skipuðu Skúli Pálsson, formaður dómnefndar, Margrét Auðunsdóttir og Sara Hrund Helgudóttir.
Tilnefningar í flokki skáldverka
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:
- Auður Ava Ólafsdóttir fyrir Eden sem Benedikt bókaútgáfa gefur út. „Grípandi samtímasaga um lífið, áskoranir þess en ekki síður fegurð hversdagsleikans. Verk sem ávarpar mikilvægi þess að rækta nærumhverfi sitt á sama tíma og huga þarf að náunganum. Höfundur fangar grósku mannlegs eðlis af einstakri næmni. Sagan endurspeglar á vandaðan hátt mismunandi kima samfélagsins og mótbyr daglegs lífs. Frásögn sem vekur hughrif og samkennd lesandans en skilur jafnframt eftir áleitnar spurningar.“
- Dagur Hjartarson fyrir Ljósagang sem JPV útgáfa gefur út. „Höfundur nær á einstakan hátt að skapa verk sveipað eiginleikum ljóðs og skáldsögu. Í reykvískum veruleika fléttast lögmál eðlisfræðinnar og ástarinnar saman á óvenjulegan hátt þar sem lesandinn hittir fyrir ólíklegar hetjur og skúrka. Spennan rís taktfast með framvindu sögunnar og heldur lesandanum hugföngnum og fullum eftirvæntingar. Sagan er frumleg, spennandi og í takt við stílbrögð ljóðlistarinnar skilur hún eftir rými til hugleiðinga.“
- Kristín Eiríksdóttir fyrir Tól sem JPV útgáfa gefur út. „Áhrifamikið samtímaverk um napran raunveruleika sem mörgum er hulinn. Framsetningin er frumleg og tekst að vera nærgætin en stuðandi á sama tíma. Lesanda er gefin innsýn í breyskleika einstaklingsins í samfélagi sem oft er vanbúið til þess að bregðast við. Án þess að setja sig í dómarasætið nær höfundur að varpa fram spurningum sem skilja mikið eftir sig. Marglaga verk sem lætur engan ósnortinn.“
- Pedro Gunnlaugur Garcia fyrir Lungu sem Bjartur gefur út. „Töfrandi og vel fléttað verk sem teygir anga sína vítt og breitt í tíma; fullt af frásagnargleði og fjölskrúðugum persónum. Sagan rýnir í samfélagið á frumlegan hátt þar sem framvinda verksins og afdrif persóna kemur sífellt á óvart. Höfundur heldur vel á þræðinum í ættarsögu sem tekst á við mismunandi viðhorf kynslóða til lífsins og áskorana þess. Verk sem spyr áleitinna spurninga og dvelur lengi hjá lesandanum.“
- Sigríður Hagalín Björnsdóttir fyrir Hamingju þessa heims: Riddarasögu sem Benedikt bókaútgáfa gefur út. „Höfundur fetar nýja slóð frá fyrri verkum sínum og freistar þess að fylla upp í tímabil Íslandssögunnar sem lítið er vitað um. Vísanir í annála, blæbrigði og stíll skapa metnaðarfullt verk sem skrifað er af virðingu fyrir því liðna, jafnt persónum sem tíðaranda. Það fléttast sömuleiðis saman við málefni samtímans á frumlegan hátt. Úr verður grípandi, heildstætt verk sem fangar athygli lesenda um samfélagið og þróun þess, allt frá fyrri tímum til dagsins í dag.“
Dómnefnd skipuðu Kamilla Guðmundsdóttir, formaður dómnefndar, Andri Yrkill Valsson og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.