„Ég tel þetta vera mikilvægt skref í samskiptum Pólverja og Íslendinga. Ég sé framtíð þessa samstarfs í björtum litum,“ segir Arkadiusz Mularczyk, aðstoðarutanríkisráðherra Póllands, í samtali við mbl.is um opnun sendiráðs Íslands í Póllandi.
Sendiráð Íslands tekur formlega til starfa í höfuðborginni Varsjá í dag eins og fram hefur komið.
„Við fögnum þessu auk þess sem 1. desember er merkisdagur fyrir Íslendinga,“ segir Mularczyk en mbl.is ræddi við hann þegar hann var staddur á Íslandi á dögunum en hann fer einnig með Evrópumál í utanríkisráðuneyti Póllands.
„Þetta er í annað sinn sem ég kem til Íslands á fjórum árum. Í fyrra skiptið var okkar góði sendiherra [Gerard Pokruszynski] að hefja störf í Reykjavík. Mér þykir ánægjulegt að heimsækja Ísland á ný og sé miklar jákvæðar breytingar. Við sendiherrann ræddum þá hvernig best væri að auka samskipti og samvinnu Póllands og Íslands enn frekar hvort sem það er á pólitískum vettvangi eða í viðskiptum. Fjórum árum síðar sé ég afraksturinn af frábæru starfi og sem utanríkisráðherra myndi ég gjarnan vilja leggja eitthvað af mörkum til að efla samskipti þjóðanna.“
Mularczyk telur að finna megi frekari viðskiptatækifæri á milli Póllands og Íslands.
„Opnun sendiráðs Íslands er lykilatriði í að efla vinskap Pólverja og Íslendinga. Ég átti mjög góðan fund með íslenska sendiherranum, Hannesi Heimissyni, og mér skilst að íslensk stjórnvöld sjái Pólland sem mikilvægan bandamann í þessum hluta álfunnar. Sjálfur er ég frá suðurhluta Póllands og bý nærri Krakow. Ég nam við háskóla í Krakow og veit að þar geta pólskir nema lært íslensku. Ég tel að við ættum að kortleggja hvernig við getum unnið betur saman og næsta skref ætti að vera að finna fleiri tækifæri til að vinna að frekari viðskiptatengslum ríkjanna,“ segir Mularczyk og nefnir þar mögulegt samstarf varðandi græna orkuframleiðslu.
„Ég hef áhuga á að koma á samskiptum á milli HS Orku og pólska orkufyrirtækinu Lotos í sambandi við græna orku. Ég mun alla vega styðja við slíka samvinnu en er einnig opinn fyrir öðrum hugmyndum. Ég tel að Pólverjar og Íslendingar eigi ýmislegt sameiginlegt.“
Á Íslandi búa nú um 30 þúsund manns af pólskum uppruna. Hvernig líta Pólverjar á Íslendinga?
„Almenningur í Póllandi er jákvæður í garð Íslendinga. Þessar tölur eru sterk vísbending um að Pólverjar kunni vel við sig á Íslandi auk þess eru engin söguleg vandamál á milli Póllands og Íslands. Mér heyrist að Pólverjar kunni vel við fólkið á Íslandi, menninguna og kannski veðurfarið,“ segir Mularczyk og blaðamaður hlær að því síðastnefnda.
„Á síðustu þrjátíu árum hafa orðið miklar efnahagslegar framfarir í Póllandi og lífsgæðin hafa batnað mjög. En um leið þá búa margir Pólverjar í öðrum löndum og ég tel að það verði styrkur að eiga menntað fólk sem talar fleiri tungumál eins og ensku og í þessu tilfelli íslensku,“ segir Arkadiusz Mularczyk í samtali við mbl.is.