Um 25 jarðskjálftar hafa mælst undir Herðubreið frá miðnætti. Sá stærsti var um 1,5 að stærð og segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, að dregið hafi úr skjálftavirkni við fjallið frá því í gær.
Jarðskjálftahrina hófst á suðurhluta Norðurgosbeltisins laugardaginn 22. nóvember. Um er að ræða svæðið norður af Vatnajökli þar sem meðal annars má finna eldstöðvarnar Öskju og Herðubreið.
Stærsti skjálfti hrinunnar til þessa varð á upphafsdegi hennar. Mældist sá 4,1 að stærð og er sá stærsti sem mælst hefur þar frá því mælingar Veðurstofunnar hófust árið 1991.
„Það dró heldur úr allri jarðskjálftavirkni í gær og mældist þá mjög lítil en það hefur samt verið töluvert af skjálftum við Herðubreið frá miðnætti,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
„Það hafa verið um 25 skjálftar frá miðnætti og því er smá virkni þarna ennþá,“ segir hann og bætir við að um séu að ræða skjálfta sem séu undir tveimur að stærð.
Einar segir að lokum að þó að ekki sé um aukningu í virkni að ræða fylgist Veðurstofan áfram vel með.