Glæpamenn lifa hátt á illa fengnu fé

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregluna grunar að hér á landi bjóði glæpamenn upp á peningaþvættisþjónustu, þar sem þeir nota sérþekkingu sína til þess að aðstoða aðra við að þvætta fé.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, í hlaðvarpsþættinum Hvítþvotti sem fjallar um peningaþvætti.

„Það er auðvitað þannig að það þarf svolitla þekkingu til að geta notað til dæmis félög í þessum tilgangi,“ segir Grímur í þættinum.

Aukin sérhæfing glæpamanna

„Flækjustigið á öllum málum hjá okkur eykst ár frá ári,“ segir hann og nefnir að brotastarfsemi sé sífellt betur skipulögð og að sérhæfing glæpamanna hafi aukist. Þó svo að málin sem komi inn á borð lögreglu séu flókin þá segir hann uppsprettuna alltaf sú sama: illa fengið fé. „Í grunninn þá er þetta reiðufé sem þarf með einhverjum hætti að koma í umferð,“ segir Grímur.

Hann nefnir einnig ólöglega eignamyndun sem dæmi um peningaþvætti og bætir við að lögreglan hafi heyrt af fólki sem lifir hátt og hefur komið undir sig dýrum eignum án þess að hafa augljósar tekjur til þess. „Með einhverjum hætti hefur því fólki tekist að þvætta fé og mynda eignir með því,“ segir hann.

Vill auknar heimildir um eignaupptöku

Í skýrslu Europol þar sem mat er lagt á hættuna sem stafar af skipulagðri glæpastarfsemi næstu árin er áætlað að yfirvöld haldleggi einungis um tvö prósent af ólögmætum ávinningi af brotastarfsemi og að þegar upp er staðið sé einungis um eitt prósent gert upptækt.

Grímur segir þetta hlutfall sorglegt og kallar eftir auknum heimildum til eignaupptöku ólögmæts ávinnings af brotastarfsemi. Hann telur þörf á að lagaramminn utan um peningaþvætti sé endurskoðaður, meðal annars með það að markmiði að heimila lögreglu að rannsaka ólögmætan ávinning af brotastarfsemi án þess að sakamál sé til rannsóknar.

Sigurður Páll Guttormsson, þáttastjórnandi Hvítþvotts.
Sigurður Páll Guttormsson, þáttastjórnandi Hvítþvotts. Ljósmynd/Aðsend

„Ég myndi vilja sjá styrkingu á löggjöfinni í tengslum við það að við gætum rannsakað peningaþvætti auðveldar sem sjálfstætt brot,“ segir Grímur og vísar til laga um eignaupptöku án sakfellingar sem eru í gildi á Írlandi. Hann telur að írska löggjöfin sé ein sú besta í Evrópu þegar kemur að heimildum til eignaupptöku ólögmæts ávinnings.

12 vikna ramminn þröngur

Hugmynd Gríms er ekki ný af nálinni því Helgi Hjörvar, fyrrverandi þingmaður, lagði einnig til auknar heimildir til eignaupptöku í lagafrumvarpi vorið 2010 með vísan til írsku löggjafarinnar. Með slíkri löggjöf þarf ákæruvaldið ekki að sýna fram á að refsiverð háttsemi sé hafin yfir allan vafa heldur nægir hefðbundið sönnunarmat dómara í einkamálum. Þar af leiðandi eru gerðar vægari sönnunarkröfur en í sakamálum.

Grímur nefnir einnig að sá tólf vikna rammi sem lögregla hafi fyrir gæsluvarðhald sé býsna þröngur í ljósi þess að fjármálarannsókn lögreglu sé oft tímafrekari en það. Hann telur augljóst að fram fari peningaþvætti sem kemst ekki upp á yfirborðið og er hæfilega bjartsýnn á framhaldið í baráttunni gegn peningaþvætti. Hann vísar í því samhengi til hins lága hlutfalls ólögmæts ávinnings sem lagt er hald á. „Það þarf ekki mikið til þess að auka þann árangur.“

Þátturinn er kominn á allar helstu hlaðvarpsveitur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert