Dópið mig í drasl!

Það vantar ekki verkfærin en þau eru nauðsynleg þegar skipta …
Það vantar ekki verkfærin en þau eru nauðsynleg þegar skipta á um lið í hné. Kristín Heiða Kristinsdóttir fékk loksins nýjan lið eftir átján ár af verkjum. mbl.is/Ásdís

Á spítalanum í einkastofu beið blaðamaðurinn Kristín Heiða Kristinsdóttir, en hún hafði dvalið þar um nóttina í góðu yfirlæti. Hún hafði þá farið í nokkrar sótthreinsandi sturtur og beið örlaga sinna undir sæng. Tússað hafði verið ör á það hné sem átti að skera, svo það færi ekki á milli mála. 

Kristín Heiða fékk að hlusta á Bubba í aðgerðinni en …
Kristín Heiða fékk að hlusta á Bubba í aðgerðinni en man lítið eftir því.

„Ég hafði smá áhyggjur því það er víst önnur Kristín hér sem á líka að skera, en ég er sannfærð um að mistök verða ekki gerð,“ segir Kristín í gríni. 

Má syngja í aðgerðinni?

Í dyragættinni birtist hjúkrunarfræðingur og tilkynnir að nú sé komið að því. Kristínu er rúllað út og inn á skurðstofugang og inn í herbergi þar sem mænudeyfingin og önnur lyfjagjöf munu fara fram. Á meðan verið er að undirbúa Kristínu, klæði ég mig í græn læknaföt og hárnet og fer í hvíta Crocs-skó af einhverjum sem ekki er á vakt. Svæfingalæknirinn Björn Gunnarsson bíður tilbúinn og er rólegur og yfirvegaður, eins og vera ber. Búið er að setja upp æðalegg hjá Kristínu og inn í æðar hennar streymir eitthvað til að róa taugarnar. 

„Er ekki fólk að segja alls konar fyndið og man svo ekki neitt?“ spyr Kristín og heldur áfram: 

„Dísa, þú hlustar og skrásetur allt sem ég segi og segir mér frá því seinna. Þú lofar að muna allt fyrir mig!“ segir hún og ég fullvissa hana um það, enda er allt tekið upp á segulband. 

„Viltu vanda þig rosalega,“ segir hún við Björn sem lofar því. 

„Má syngja í aðgerðinni?“ spyr hún og Björn segir hún verði þá að gera það í hljóði. 

„Nú kemur stunga,“ segir Björn og sefar Kristínu með því að segja henni að hann hafi ekki tölu á því hversu oft hann hefur framkvæmt mænustungu. 

Björn Gunnarsson svæfingalækni var flinkur með nálina þegar hann mænudeyfði …
Björn Gunnarsson svæfingalækni var flinkur með nálina þegar hann mænudeyfði Kristínu Heiðu.

Björn deyfir fyrst vel svæðið og stingur svo langri nál fimlega inn í mænuna. Kristín kippist aðeins við en finnur aðeins til í augnablik. Því næst er hún flutt í rúmi inn á skurðstofu þar sem heilt teymi bíður hennar innan um háþróuð tæki og tól. Á borði einu við gluggann má sjá sagir, borvélar, hamrar, skrúfstykki ýmis konar og önnur verkfæri sem ég kann ekki að nefna en eru sérhönnuð auðvitað fyrir aðgerð af þessu tagi. Ég lít út um gluggann þar og dreg andann djúpt. Smíðarnar eru um það bil að fara að hefjast. 

Vertu blíður við beinin mín!

Kristín er færð yfir á skurðarbekk og vinstri fótleggurinn er hengdur upp í loft um hríð. Hjúkrunarfræðingurinn eyðir góðri stund í að sótthreinsa hann með gulum sótthreinsunarvöka og klæðir hann svo í plastfilmu. Fótleggurinn er svo skorðaðir af og látinn vera í boginni stöðu.

Nýi liðurinn sýndur blaðamanni áður en hann hvarf inn í …
Nýi liðurinn sýndur blaðamanni áður en hann hvarf inn í sárið.

„Dópið mig í drasl“ segir Kristín sem er enn vakandi og stressið farið að segja til sín, þó kæruleysislyfið sé aðeins farið að virka. Hún fær heyrnartól yfir eyrun og velur Bubba til að hlusta á í aðgerðinni, en eftir á man hún reyndar aðeins eftir örfáum tónum í fyrsta laginu. Hún er í spjallstuði og spyr lækna og hjúkrunafólk að ýmsu sem það reynir að svara eftir bestu getu, en ekki er alveg víst að hún komi til með að muna allt. 

„Takið af mér heyrnartólin, ég þarf að segja eitt að lokum!“ segir Kristín. 

„Ég hef fullt traust á þessum unga fallega manni og vil segja það enn og aftur; viltu vera blíður við beinin mín?“ segir hún og er sofnuð mínútu síðar. 

Eins og á smíðaverkstæði

Bæklunarskurðlæknarnir, Ingi Hrafn Guðmundsson og Sverrir Kiernan, hefjast handa. Byrjað er á skurði og hnéið ​​​​​​​er opnað þannig að við blasir blóð, sinar, bein og fituvefur. Við taka fumlaus handbrögð læknanna sem skera, ​​​​​​​saga, bora, skrúfa​​​​​​​ og hamra þar til nýr liður er kominn á réttan stað. Það er ekki laust við að manni finnst maður vera á smíðaverkstæði og ekki er hægt að segja að Kristínu hafi orðið að ósk sinni því það er ekkert hægt að fara blíðum höndum um beinin þegar framkvæma á svona liðskiptaaðerð. En hún er sem betur fer steinsofandi í gegnum allt og finnur ekkert til. Þegar búið er að koma nýja liðnum á réttan stað er öllu lokað með því að sauma að innan og hefta að utan​​​​​​​​​​​​​​. Að lokum er fóturinn þrifinn og vafinn í sárabindi. ​​​​​​​

Stundum þurftu læknar að munda hamarinn.
Stundum þurftu læknar að munda hamarinn.

Undirrituð fylgdist agndofa með aðgerðinni með myndavélina á lofti og lifði af aðgerðina án þess að falla í yfirlið. Þess má geta að lesendum er hér hlíft við að sjá „verstu“ myndirnar, svo það líði ekki yfir neinn yfir morgunkaffinu um helgina. 

Allt yfirstaðið og batinn framundan. Vonandi getur Kristín Heiða dansað …
Allt yfirstaðið og batinn framundan. Vonandi getur Kristín Heiða dansað í kringum jólatréð í ár, með hjálp hækja!

Nánar má lesa um liðskiptaaðgerð Kristínar Heiðu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert