Mótmæla lokun: „Var það sem maður lifði fyrir“

Björn hefur verið viðloðandi Siglunes um áratugaskeið.
Björn hefur verið viðloðandi Siglunes um áratugaskeið. Samsett mynd

Rúmlega tólfhundruð manns hafa skráð nafn sitt á undirskriftalista sem mótmælir lokun Siglingaklúbbsins Siglunes í Nauthólsvík. Lokunin er hluti af fjölþættum hagræðingaraðgerðum Reykjavíkurborgar til að mæta hallarekstri.

Björn Bjarnarson, starfsmaður Sigluness, átti frumkvæðið að undirskriftasöfnuninni sem fer fram á vefsvæði Change.org undir heitinu: „Björgum Siglunesi: einstöku æskulýðsstarfi á sjó“.

Siglunes áhrifavaldur í lífi margra

Björn hefur verið í og á sjó frá unga aldri og er með alþjóðleg kennsluréttindi í siglingakennslu erlendis frá ásamt því að vera virkur þátttakandi í sjóbjörgunarsveit. Hann segir siglinganámskeið Sigluness hafa verið kveikjuna að áhuga hans á hafinu.

„Ég byrjaði sjálfur þarna á námskeiði þegar ég var átta ára gamall og er núna orðinn 26 ára. Sumarið byrjaði fyrsta daginn sem Siglunes opnaði og var búið daginn sem það lokaði.

Þá beið maður bara spenntur eftir því að koma þangað aftur. Þetta var það sem maður lifði fyrir,“ segir Björn í samtali við mbl.is. Hann hefur unnið í Siglunesi öll sumur frá árinu 2014.

Börn dragi margþættan lærdóm af starfseminni

Margir hafa skrifað athugasemdir við listann á Change.org. Þar hefur sérstök áhersla verið lögð á það hlutverk sem Siglunes þjónar í því að kenna börnum að umgangast og kynnast hafinu.

„Siglunes vinnur svo magnað starf sem styrkir ungt fólk andlega og félagslega, kennir þeim á náttúruna, siglingar og svo margt fleira. Það er glötuð ákvörðun að loka Siglunesi!,“ segir einn notandi.

Björn tekur undir þetta og segir fjölda smærri og stærri sigra unna með starfseminni. Sumir felist í því að vinna bug á sjóhræðslu.

Björn hefur marga fjörunna sopið.
Björn hefur marga fjörunna sopið. Ljósmynd/Siglunes

„Þetta er frábær staður fyrir krakka með ólíkan bakgrunn til að koma og takast á við náttúruna og sjálft sig á eigin forsendum. Við erum þarna til að leiða þau í gegnum það ferli og uppgötva sjóinn og sjálft sig á nýjan hátt.“

Björn kveðst ekki hafa heyrt af þessum fyrirætlunum borgarinnar fyrr en hann sá þær í fjölmiðlum. Hann segir sig og aðra starfsmenn slegna yfir fréttunum og vonar að borgarstjórn falli frá þessum áformum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert