Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins gefa tilefni til bjartsýni. Engin formleg yfirlýsing hefur verið gefin út um aðkomu stjórnvalda en Katrín segist fylgjast náið með framgangi mála.
„Eftir því sem ég heyri er þetta tiltölulega metnaðarfullur samningur þó hann sé til skamms tíma. Það er sjaldgæft að samningur taki við að samningi en það gerist með þessum samningi sem er líka fagnaðarefni.
Ég vona auðvitað að núna að þegar SGS og SA og hafi brotið ísinn, ef svo má segja, að fleiri fylgi í kjölfarið og nái farsælli lausn við samningaborðið,“ segir Katrín í samtali við mbl.is í kvöld.
Þegar Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur í lok síðasta mánaðar boðaði forsætisráðherra aðila vinnumarkaðarins á sinn fund í stjórnarráðinu til að ræða stöðu mála.
Katrín segir stjórnvöld vera í nánum samskiptum við samningsaðila á meðan kjaraviðræðum stendur og að fjölþættar tillögur séu í vinnslu hjá stjórnvöldum. Þær tillögur lúti meðal annars að húsnæðismálum, húsnæðisstuðningi og auknu framboði þess en einnig til barnabótakerfisins.
„Forystufólkinu er fullkunnugt um hvaða vinnu við erum að vinna. Hins vegar munum við svona aðeins bíða og sjá hvernig gengur og hvort fleiri aðilar nái saman.“
Að mati Katrínar eru samningarnir tilefni til bjartsýni en bendir á að staðan sér snúin.
„Þetta eru flóknir tímar og flókin staða í efnahagsmálum.“