Sjö ára barn alvarlega slasað eftir áreksturinn

Bílslysið átti sér stað á Hnífsdalsvegi á Vestfjörðum.
Bílslysið átti sér stað á Hnífsdalsvegi á Vestfjörðum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Sjö ára gamalt barn er á meðal þeirra sem slösuðust alvarlega í árekstri á Hnífsdalsvegi í gærkvöldi. Barnið var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur ásamt tveimur öðrum.

Þetta staðfestir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, í samtali við mbl.is. Tvær bifreiðar, sem komu hvor úr sinni áttinni, skullu saman, en í þeim voru samtals fimm manns.

„Þessir fimm aðilar voru fluttir á Ísafjörð og þrír það alvarlega slasaðir að þeir voru fluttir með sjúkraflugvélum til Reykjavíkur til frekari meðferðar. Þetta er allt fólk sem býr hérna á svæðinu.“ segir Hlynur.

Um 50 viðbragðsaðilar

„Þetta er þannig verkefni að það þurfti allmarga viðbragðsaðila, lögreglumenn, sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn, björgunarsveitarmenn og fólk frá Rauða krossinum, ásamt heilbrigðisstarfsmönnum.“

Alls tóku um fimmtíu manns þátt í aðgerðunum.

„Það gekk vel að hlúa að fólkinu á vettvangi og koma því á sjúkrahúsið á Ísafirði. Það var kallað eftir tveimur sjúkraflugvélum og aðgerðarstjórn almannavarna á Vestfjörðum var virkjuð, sem og samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð.“

Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum.
Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. mbl.is/Sigurður Bogi

Ísing mögulega haft áhrif

Hann segir tildrög slyssins vera til rannsóknar.

„Það er snjólaust hérna á Vestfjörðum en það gerði ísingu í gær. Án þess að hægt sé að segja til um tildrögin má alveg búast við því að það hafi haft einhver áhrif.“

Rýnifundur verður haldinn með viðbragðsaðilum klukkan þrjú í dag í félagsheimilinu Hnífsdal.

„Það er hefðbundinn fundur þar sem viðbragðsaðilar fá tækifæri til þess að ræða aðgerðina og við getum lært hvert af öðru. Viðbragðsaðilar stóðu sig með einstakri prýði og þetta gekk vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert